Á þessum hluta vefsins segir Garibaldi frá sjálfum sér og uppruna, störfum og námi.

 

Garibaldi rekur ættir sínar vestur og suður um landið, föðurættin bjó á Hornströndum en móðurættin bjó víða um sunnan- og vestanvert landið, á Mýrunum,  Suðurlandi, í Keflavík og Garðinum (Rosmhvalanesi). 

Garibaldi er fæddur í Reykjavík og ólst þar upp til tvítugs að hann flutti til Vestmannaeyja þar sem hann vann og bjó í 5 ár uns hann flutti aftur í bæinn. Hann hefur síðan búið í Reykjavík fyrir utan 5 ár í Vancouver í Kanada á námsárum sínum þar 1990-1995 og síðan eitt ár á Höfn í Hornafirði er hann stundaði þar kennslu veturinn 1999-2000. 

Garibaldi hóf ritstörf eftir heimkomuna frá Eyjum 1980 og birtust fyrstu verk hans 1982 en það voru þýðingar á smásögum í útvarpi. Síðan hefur hann stundað þýðingar skáldsagna, ljóða og fræðiefnis. Fyrsta ljóðabók hans kom út 1983 en síðan varð 14 ára hlé og eru ljóðabækur hans nú orðnar átta talsins. Fyrsta frumsamda smásaga hans birtist í útvarpi 1984 og skrifaði hann og birti nokkrar smásögur næstu árin sem vöktu nokkra athygli, einkum fyrir óvænt efnistök og hrollkenndar lýsingar. Smásagnasafn hans, Faðerni og fleiri sögur  (2015) geymir sumar þessara sagna og aðrar frá síðari árum. Sjá nánar í Ritaskrá.

Í föðurætt Garibalda má nefna fjölda rithöfunda og listafólks, t.d. föðursystur hans þær Jakobínu og Fríðu Á. Sigurðardætur, Þórleif Bjarnason höfund Hornstrendingabókar með meiru og son hans Friðrik Guðna Þórleifsson ljóðskáld, ömmubróður hans Sigmund Guðnason ljóðskáld; frænda Garibalda, Guðna Kolbeins rithöfund og þýðanda, dætur Jakbobínu, systurnar Stefaníu og Sigríði Kristínu Þorgrímsdætur, Hildi Knútsdóttur og Starra Hauksson. Einnig má telja allmarga tónlistamenn eins og bræðurna Sigurð og Svein Björgvinssyni, Kjartan Baldursson og Margréti Júlíönu Sigurðardóttur. Læknislistin liggur líka í æðum ættarinnar en Sigurður Sigurðsson afi Garibalda starfaði lengi sem yfirsetumaður á Hornströndum (auk þess að vera bóndi, smiður og símstöðvarstjóri á Hesteyri); Kristján sonur hans var frægur læknir og börn hans hafa flest lagt læknislistina fyrir sig.

Í móðurætt Garibalda eru margir listamenn eins og leikararnir Guðmundur Magnússon og Þorsteinn sonur hans og Edda Heiðrún Backman, og rithöfundarnir Sirrý Skarphéðinsdóttir, Arnmundur Backman og Eyrún Ingadóttir.

Loks er sonur Garibalda, Þórir Garðarsson, tónlistarmaður og meðal stofnenda hljómsveitarinnar Svartidauði, og er núna gítarleikari hennar ásamt fleiri hljómsveita eins og Sinmara –sjá líka Wikipedia-síðu um Svartadauða. 

 
Garibaldi
tölvupóstur/e-mail garibaldi@garibaldi.is
© Garibaldi 2021
iceland-flag-xl.jpg