Garðar Baldvinsson

Sögunarkarl, goðverur, sjálf. Greinar um bókmenntir

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Formáli

 

Það er líkast til jafn gamalt mannkyninu að segja sögur. Sú list hefur verið flokkuð í nokkra hópa sem á öldum áður töldust til hinna fögru lista. Hefur hlutverk þeirra verið hugsað með ýmsu móti og eru kannski frægastar hér á Vesturlöndum myndirnar sem forngrísku heimspekingarnir Platón og Aristóteles drógu upp af bókmenntum og skáldum. Platón taldi heimspeking komast næst því að segja satt um heiminn en að skáldin töluðu í lygum. Aristóteles taldi hins vegar æðst bókmenntaforma vera leiklistina og að hennar hlutverk væri að hreinsa manninn eða áheyrandann af illum tilfinningum eða hugsunum og kallast það kaþarsis í riti hans Um skáldskaparlistina. Auðvitað sögðu þessir spekingar ýmislegt fleira um bókmenntir sem ekki verður talið upp hér. En þessar hugmyndir eru næstum því reglulega hunsaðar og upphafnar á víxl í umræðu um bókmenntir.

     Um og upp úr aldamótunum 1800 fóru menn t.d. að telja skáldið snilling sem hefði aðgang að einhverjum guðlegum sannindum um lífið og tilveruna en síðar á 19. öld lögðu skáld og fræðimenn meira upp úr að bókmenntir skoðuðu vandamál heimsins og að skáldin yrðu þá eins konar vísindamenn sem gerðu tilraunir með heiminn og mannfélagið. Tókust svo rómantík og raunsæi á um nokkurra áratuga skeið uns módernisminn hélt innreið sína sem sumir vilja tímasetja nákvæmlega í eða í kringum desember 1910 eins og Virginia Woolf gerði (‚Mr Bennett and Mrs Brown‘ 1924). Fer þá skáldskapurinn að greina sundur það sem skilur manninn frá náttúrunni og umhverfi hans, firringin verður stórt atriði með einsemd mannsins í stórborgum samtímans. Á Íslandi hefur lengi verið sagt að módernisminn hafi ekki almennilega komist hingað fyrr en á sjöunda áratugnum þótt ýmis umbrot hafi gerst allt frá því um 1920.

     Þær greinar sem hér birtast ganga inn í þessa umræðu og fjalla um bókmenntir í lok 19. aldar og fram eftir 20. öld. Í mörgum þeirra er rætt um módernísk bókmenntaverk eins og sögur Ástu Sigurðardóttur, Svövu Jakobsdóttur og Guðbergs Bergssonar. En annar þráður er einnig sá sem lýtur að bókmenntum íslenskra vesturfara, landnema í heimi sem átti sér afar fáar hliðstæður í þeim íslenska veruleika sem þeir fluttu úr. Þótt hér sé talað um íslenskan veruleika eins og hann sé einn taka greinarnar þvert á móti þannig á hlutunum að veruleikinn er margfaldur í roðinu. Sem dæmi má nefna veruleikann sem birtist í orðræðu sögupersónu í sögu Bills Valgardson, „Maðurinn af Snæfellsnesinu" en sú persóna, þ.e. langafi söguhetjunnar, er búin að gylla allt sem íslenskt er og moka hreinlega yfir það vonda á Íslandi sem hrakti hann úr landi. Og má segja að í Kanada, þar sem flestir íslenskir landnemar bjuggu, hafi orðið „veruleiki" kannski sýnt svo margar hliðar að á bak við það búi vægast sagt margir leikar eins og lífið og tilveran hafi brugðið á mikinn leik svo persónurnar í sögunum eigi fullt í fangi með að finna hvar þær eru staddar. Orlög íslenskra nýbúa í Kanada gætu orðið að lexíu fyrir Ísland samtímans sem treystir æ meira á vinnuframlag innflytjenda; getum við forðast að reisa múra milli íslenskrar menningar og menningar þeirra sem flytja hingað? Leyft þeim að ástunda eigin menningu og sögu án þess að amast við því? Hér á þessum síðum er víða lögð áhersla á samkennd með innfluttu fólki, svo það verði ekki, eins og sagt er í greininni „Um ljóðið „Sögunarkarl í Vesturheimi" eftir Jóhann Magnús Bjarnason", það sem verður á þeim línum „eins og betlikarl". Hvað segir að nýbúar þurfi að verða hinir lægst settu, eins og ljóðið og fleiri verk vestur-íslenskra bókmennta lýsa íslenskum nýbúum í Kanada.

 

Þegar ég var í námi við Háskóla Íslands á níunda áratugnum kynntist ég nokkrum fræðimönnum og hugsuðum sem heilluðu mig svo að ég haslaði mér völl á því sviði bókmenntafræði sem nálgast verkin á mjög teoretískan hátt. Helstu fræðimennirnir voru táknfræðingurinn og sálgreinandinn Julia Kristeva sem lagði fram hugmyndir um textatengsl og kóruna sem auðveldar henni að skoða texta á femínískan hátt, sálgreinandinn Jacques Laean sem lagði fyrir sig að endurtúlka kenningar og texta Sigmunds Freuds með nýrri áherslu á þátt tungumálsins í mótun mannsins, heimspekingurinn Jacques Derrida sem ástundaði nýja aðferð við lestur texta, afbyggingu, sem togar textana og teygir m.a. með því að benda á innbyggðar þversagnir sem ýta textunum í ólíkar áttir, og loks vísindaheimspekingurinn og sagnfræðingurinn Michel Foucault sem gerir texta og margvísleg samfélagssvið að orðræðu og veltir fyrir sér viðbrögðum við þeirri hugmynd að höfundurinn sé dauður og kemst að því að þótt höfundurinn hverfi að mestu úr textunum lifi áfram í þeim eitthvað sem virkar eins og það sé höfundur og hefur verið þýtt sem höfundargildi og höfundarvirkni. Einnig má nefna fræðimenn eins og Hélène Cixous og Roland Barthes sem voru að vissu leyti bókmenntalegar sinnuð. Cixous hefur t.d. einnig skrifað fjölmörg skáldverk, en Kristeva tók einnig til við það og hefur gefið út margar skáldsögur. Margt í þessum fræðum, einkum hjá Kristevu og Lacan, lýtur ennfremur að sjálfsverunni, þessu afli í textanum sem hugsar, finnur til, talar og athafnar sig. Hér er brugðist við og gagnrýnd sú heimspeki René Descartes frá 17. öld um sjálfsveru sem kölluð hefur verið cogito-sjálfsvera eftir þeirri hugmynd hans að það sem skapi mannveruna sé hugsun og hugsunin geri hana heildstæða. Öfugt við þessa heilu og óbrotgjörnu sjálfsveru hugsunarinnar hefur margt í kjölfar fyrstu skrifa þessara fyrrnefndu höfunda beint athygli að því hvernig sjálfsveran er endalaust klofin og sundruð eins og birtist t.d. í hugtaki Kristevu, rásandi sjálfsveru fyrir rétti. Rannsóknir mínar í fræðum og á bókmenntum okkar Íslendinga á 20. öld hafa enda snúist mjög um þennan klofning og hvernig hann gerist en ekki síður hvernig hann hefur áhrif á það sem persónur bókmenntanna hugsa, upplifa og gera eða segja. Nýti eg á nokkrum stöðum þá frægu setningu Sigurðar Grímssonar, „mér fanst ég finna til" (1922) sem mörgum fannst óheyrilega fjarstæðukennd og þar af leiðandi klénn skáldskapur en sumum öðrum fannst hann einmitt hitta naglann á höfuðið — ef hægt er að nota það orðalag um það að eitthvað lýsi vel einhverju þegar haft er í huga að höfuðið er ekki lengur talið meginupptök eða átakasvæði mannsins. Usli í bókmenntum í anda þessara fræðimanna — og fleiri — er viðfangsefni mitt í greinum um bókmenntir sem skrifaðar eru á Íslandi og ég kalla hér á eftir „íslenskar bókmenntir".

Það mætti kannski heita undarlegt að maður með þennan teoretíska áhuga skyldi einnig fá áhuga á vestur-íslenskum bókmenntum sem við fyrstu sýn virðast einsleitar og fjalla um Íslendinga sem hetjur og að sá hetjuskapur hafi hjálpað vesturförum við að koma sér fyrir og aðlagast kanadísku samfélagi. En eins og ég vonast til að draga fram í greinunum um „vestur-íslenskar bókmenntir" hér á eftir þá eru alls konar átök að gerjast í söguhetjum þessara bókmennta. Textarnir virðast líka einfaldir og leitast skilmerkilega við að endurskapa mjög afmarkaðan veruleika sem kalla mætti vestur-íslenskan. Einnig á þessu sviði verða á vegi fræðimannsins margvísleg annarleg lög og misgengi sem breyta einslaga texta í fjölbreytilegt svið sem má beita á kenningum af mörgum toga. Getur jafnvel verið að í þessum bókmenntum verði fyrr vart við módernisma en í bókmenntum hér heima?

 

Eru greinarnar í þessu riti nánast óbreyttar frá upphaflegri útgáfu en þó hnikað til orði hér og þar og einnig er á nokkrum stöðum viðbætur vegna síðari tíma. Helstu breytingarnar eru þó þessar: Eftir að greinar þær sem hér birtast komu upphaflega út hefur ýmislegt erlent efni sem vísað er til verið þýtt á íslensku og er þá vitnað til þeirra þýðinga sbr. t.d. nmgr. 8 bls. 120; erindið um menningarárekstra var mikið endurunnið fyrir þessa útgáfu upp úr tveimur erindum um togstreitu í vestur-íslenskum bókmenntum; og ritdómurinn um The Prowler var þýddur úr ensku því hann birtist upphaflega á ensku í kanadíska bókmenntatímaritinu Canadian Literature 1992.

     Greinarnar í þessu riti fjalla um bókmenntir frá ýmsum sjónarhornum sem ég hef beitt í gegnum tíðina og er óhjákvæmilegt að svipuð efnistök birtist frá einni grein til annarrar og að efni þeirra skarist að einhverju leyti. Hugmyndir eins og um sjálfsveruna, femínisma og merkingarframleiðsluna eru ákveðin leiðarstef í gegnum bókina og birtast með ýmsu móti. Margir þessara höfunda sem áhrif hafa haft á mig eiga síðan efni í þýddum ritum mínum og ritum sem ég hef ritstýrt sem eru efni í aðra bók.

     Á nokkrum stöðum í ritgerðum um vestur-íslenskar bókmenntir er rætt um Vesturfara sem nýbúa og þeir jafnvel bornir saman við nýbúa á Íslandi á 21. öld. En greinarnar um íslenskar bókmenntir styðjast mjög við fræði sem skrifuð voru á frönsku en höfundarnir voru einmitt í nokkrum tilvikum nýbúar í Frakklandi, því Julia Kristeva er frá Búlgaríu, Jacques Derrida og Hélène Cixous frá Alsír en Roland Barthes var Baski. Þannig var mikill menningarþungi í franskri orðræðu kominn frá nýbúum sem með þessu auðguðu franska menningu mjög. Á Íslandi hefur hins vegar ekki alltaf verið tekið vel á móti útlendingum og er skemmst að minnast hins fræga „ástands" í Reykjavík á árum síðari heimsstyrjaldarinnar. Spánverjavígin 1615 eru annað dæmi um þessi annarlegu viðhorf en lögformlegt réttmæti þeirra var ekki afturkallað fyrr en vorið 2015. Því miður vaknar minningin um þessi ódæðisverk þegar Frakkar verða fyrir hryllilegri hryðjuverkaárás á meðan á undirbúningi þessa rits stendur, 13. nóvember 2015. Séra Jón Bjarnason sagði í upphafi vesturferða að sá sem væri á móti þjóðerni sínu væri á móti Guði. Álíka samsömun býr því miður til hryðjuverkamenn víða um heim nú um stundir. Má segja að Vestur-Íslendingar hafi einmitt tekist á við hugmyndir um mannorðsmorð og útþurrkun kynstofnsins með samlögun við ríkjandi kynstofna, en þau vandamál eru talin undirrót í öllum þessum tilvikum. Og nú á tímum þegar að minnsta kosti tíundi hluti þjóðarinnar er af erlendu bergi brotinn kviknar slík umræða enn í okkar samfélagi. Ekki síður vaknar hér spurning um tungumál en íslenskir nýbúar létu af því að tala íslensku til að samlagast. Nú á dögum er spurt hvort Íslendingar, fólkið sem byggir Ísland, þurfi að samlagast nútímanum með því að taka upp ensku. En bókmenntirnar hafa ekki svör við þessum spurningum.

 

Greinarnar í þessu safni hafa allar birst áður eða verið fluttar sem erindi (nema hvorttveggja sé) og hafa komið að ritun hennar ritstjórar ýmissa bóka og tímarita. Ritstjórarnir hafa allir gefið notadrjúgar ábendingar og athugasemdir og ber þar fyrst að nefna fyrrverandi kennara mína Ástráð Eysteinsson og Helgu Kress, sem lásu einnig yfir nokkrar greinanna. Ástráður ritstýrði Skírni um hríð og kom að tveimur ritgerðanna þar, sem og fleiri ritgerðum bæði sem yfirlesari og ritstjóri. Jón Karl Helgason og Sveinn Yngvi Egilsson lásu einnig yfir tvær greinar í Skírni. Sigurjón Baldur Hafsteinsson mannfræðingur hefur bæði ritstýrt nokkrum greinanna og lesið margar aðrar yfir á vinnslustigi. Franz Gíslason kom að ritgerð í Jóni á Bægisá. Loks ber að nefna Rögnu Garðarsdóttur sem ritstýrði vefsvæði á vegum Háskóla Íslands, en hún lést langt fyrir aldur fram skömmu síðar. Kristín Viðarsdóttir og Kristín Birgisdóttir komu að yfirlestri og ráðgjöf við ritun greina á námsárum mínum, og sú fyrrnefnda einnig vegna ritunar formála um vestur-íslenskar bókmenntir. Ég stend í mikilli þakkarskuld við alla þessa aðila og aðra sem hafa komið að samningu þessara greina þegar þær birtust. Loks eiga börn mín, Þórir, Viðar Snær og Védís, miklar þakkir skyldar fyrir ráðgjöf, hvatningu og lestur við gerð þessarar bókar.

Vísun:

Garðar Baldvinsson. „Formáli“. Sögunarkarl, goðverur, sjálf. Greinar um bókmenntir.  GB útgáfa. 2015. Sótt af https://www.garibaldi.is/sogunarkarl-formali

​​​Efnisyfirlit

​Formáli........................................................................................................................... 7

Vestur–íslenskar bókmenntir

Íslensk–kanadískar bókmenntir í gegnum tíðina............................................................ 13

Um ljóðið „Íslenzkur sögunarkarl í Vesturheimi“ eftir
Jóhann Magnús Bjarnason............................................................................................. 75

Orð og ferðatöskur. The Prowler sem þýðing á íslenskri menningu og sögu................... 85

Menningarárekstrar í Kanada á 19. öld og á Íslandi á 21. öld........................................ 100

Íslenskar bókmenntir

„ég vissi varla hvar“. Ásta Sigurðardóttir og femínismi................................................ 113

Hugveruleikur og réttarhald í Grámosinn glóir eftir Thor Vilhjálmsson..................... 125

Aðsteðjandi blöskrun................................................................................................. 141

„Í leit að eilífu lífi“: Um dauðann í íslenskri ljóðagerð.................................................. 145

Æxlun mynda. Um ljóðlist Sigfúsar Bjartmarssonar.................................................... 180

Svart á hvítu. Þýðing blakkra kvennabókmennta........................................................ 205

Völundarhús sjónlínanna. Reykjavík í ljósmyndum og ljóðum
á tuttugustu öld......................................................................................................... 229

„Tveir karlmenn sem böðuðu sig í heimsins dýrð“. Um Leigjandann
eftir Svövu Jakobsdóttur............................................................................................ 263

Þegn, líkami, kyn....................................................................................................... 271

Goðverur loftsins. Um Tangasögur Guðbergs Bergssonar............................................ 293

Ritdómar

Hvernig kona verður til. Um bók Dagnýjar Kristjánsdóttur, Kona verður til. ............. 313

Ritdómar í Þjóðviljanum 1989................................................................................... 317

Snuðrað í sögu og tungumáli..................................................................................... 328

Eyðimerkur, sjónbaugar og þýðingar ..........................................................................330


Bókfræðiupplýsingar ............................................................................................................337
Nafna- og atriðisorðaskrá ....................................................................................................339

 
Garibaldi  ehf
tölvupóstur garibaldi@garibaldi.is
© Garibaldi
iceland-flag-xl.jpg