Search

Vaknað í Gvangsá

Stutt kynning á ljóðabók Garibalda, smávinir fagrir foldarskart.

Fyrst eru örstuttir kaflar úr upphafi Eftirmálans en síðan upphafsljóð bókarinnar, „vaknað í gvangsá“.


Smávinaskart á ferð

Hér á eftir verður reynt að bregða svolitlu ljósi á nokkur atriði í ljóðunum á þessum síðum, sitthvað sem kann að virðast framandi. Er hér átt við bæði staðanöfn, persónur, hugmyndafræði og Maó Zedong, stjórnmálamanninn jafnt sem skáldið. Hér er þó hvorki heildstæð úttekt á þessum atriðum né fræðileg umfjöllun, enda undirritaður ekki sérfræðingur um menningu eða sögu Kína.


Ljóðin í þessari bók spretta af hughrifum sem ég fann í Kínadvöl árið 2007 og við íhugun að henni lokinni. Víða blöstu miklar andstæður við augum bæði í kynnum af landi og þjóð en einnig vakti undrun mína fjarvera helsta leiðtoga þjóðarinnar á 20. öld, Maós Zedong. Ljóðabálkurinn „spakar tungur“ og samnefnt ljóð þar á upptök í umhugsun um þessar andstæður sem og hugleiðingum og lestri um Maó og tilteknar herferðir hans, einkum stökkið mikla og menningarbyltinguna, ásamt lestri á ýmsum textum hans. Ljóð mín spretta þó ekki síður af lestri um síðari tíma aðgerðir stjórnvalda eins og lög um eitt barn á fjölskyldu og breytingar á hagkerfinu í átt til kapítalisma. Inn í ljóð bókarinnar fléttast sögur af fólki sem ég kynntist og sögur sem það sagði af samferðafólki sínu. Engu að síður eru ljóðin hugarburður, skáldskapur.


Titill bókar minnar er sóttur í ljóð Jónasar Hallgrímssonar, „Hulduljóð“, þar sem Eggert Ólafsson er gerður hetja íslenskrar ættjarðar, í reynd landsfaðirinn mikli, og látinn tala um fagurt smávinaskart á íslenskri foldu, en orðin eru hér færð í kínverskt samhengi og fólkið þar gert að smávinum fögrum og foldarskarti á ævintýralegri grund þessa mikla ríkis. Í ljóðunum á þessum síðum er m.a. fjallað um Maó Zedong sem hina miklu föðurímynd kínversku þjóðarinnar en einnig hvernig búið er að kasta á glæ þeim þáttum í sögu hans sem vinna gegn þessari ímynd. Þannig skýrist einnig kápa bókarinnar með Maó efstan á peningaseðli – líkt og miðpunkt hagkerfisins – en neðst ber í hendur þeirra Eggerts og konu hans, Ingibjargar Guðmundsdóttur, en þau sjálf eru horfin í ólgandi hafið úti fyrir Skor, eins og líka er vikið að m.a. í ljóðinu „áhrínsorð“.


Borgin og umhverfi hennar

Í ljóðunum á þessum síðum er ferðast um árósa Perluár þar sem Gvangsá og borgirnar í kring standa en einnig var farið lítið eitt út fyrir þær. Nágrannaborgir Gvangsá eru m.a. Foshan, Dongguan, Zhongshan (Dúnsan) og Shenzhen en saman mynda þær stórt borgarsvæði sem gengur stundum undir heiti stóru borgarinnar, Gvangsá, og mynda ásamt t.d. Hong Kong og Maká stærstan hluta efnahagssvæðis Perluárinnar og ósa hennar (Gullna ósasvæði Guangdong), sem er eitt þéttbýlasta svæði heims, með um 120 milljónir íbúa. Shenzhen var gert að sérstöku hagstjórnarsvæði innan Kína að frumkvæði Dengs Xiaopeng og átti að vera tilraunaverkefni fyrir kínverskt markaðshagkerfi sem byggja skyldi á „sósíalisma með kínversku yfirbragði“. Nafn borgarinnar hljómar ekki ósvipað og orðin takk fyrir, eða xièxiè (dsen-dsen); í ljóðinu „fótmál“ umrita ég orðin í sjesje, en mér var skiljanlega legið á hálsi fyrir þennan ranga framburð.


Áin sem borgirnar standa við, Perluá (ZhuJiang), var áður kölluð Kantonfljót að enskum sið eftir borginni Gvangsá sem og héraðinu, Guangdong, en nafn þess hljómar í líkingu við kanton á sumum mállýskum þar um slóðir. Í héraðinu er töluð sérstök tunga, kantonska, en hún er um margt frábrugðin mandarín sem er annars ríkjandi í landinu. Á kantonsku hljómar nafn borgarinnar sem Gvangsá, en á mandarín líkara Gvangsjú. Með þverám er Perluá þriðja stærsta fljót Kína á eftir Jangtsífljóti og Gula fljóti. Nafnið Perluá er oftast notað um vatnasvæði þriggja stórra fljóta sem heita eftir höfuðáttunum, Xi (Vestur, Xijiang), Bei (Norður, Beijiang) og Dong (Austur, Dongjiang). Xijiang kemur langt úr vestri og rennur í sjó fram nokkuð fyrir sunnan Gvangsá og reyndar fyrir sunnan Dúnsan einnig. Beijiang skiptir um nafn og heitir Shawan skömmu áður en hún rennur inn í Perluá syðst í borginni, en sú síðarnefnda rennur síðan út í Gvangsáflóa að Gulahafi. Dongjiang rennur í Perluá að austanverðu innan borgarmarkanna aðeins norðar en hinar.


Ósasvæði Perluár var mikilvægur viðkomu- og verslunarstaður á tímum Silkileiðarinnar, hinnar löngu viðskiptaleiðar milli Evrópu, Indlands og Kína á miðöldum. Ópíumstríðin á 19. öld fóru illa með svæðið og féllu t.d. milljónir manna í bardögum í kringum 1850. Gvangsá var einnig vettvangur uppreisna gegn keisaranum í kringum 1900, ekki síst lokauppreisnarinnar 1911. Nokkrum árum síðar, 1917, stofnaði faðir borgarinnar, Sun Yat-sen, sjálfstætt ríki í borginnni og skipaði sjálfan sig marskálk; sú stjórn féll síðar sama ár þegar stríðsherrarnir á svæðinu hættu stuðningi sínum. Á 3. áratugnum báru fylkingar Suns og þjóðernisflokksins Kúómíntang sigurorð af stríðsherrunum þar. Kommúnistar gerðu þar einnig uppreisn 1927 sem Kúómíntang barði niður á skömmum tíma. Japanir hertóku borgina 1938 og réðu henni til loka heimsstyrjaldarinnar sumarið 1945. Nokkrum mánuðum áður en kommúnistar náðu fullum völdum í Kína 1949 gerðu þeir Gvangsá að höfuðborg landsins en við valdatökuna varð svo Beijing höfuðborg. Nálægðin við Hong Kong og Shenzhen hefur eflt og auðgað Gvangsá og skatta- og hagkerfisbreytingarnar upp úr 1990 hafa þróað og tæknivætt borgina enn frekar.

Götur Gvangsá eru iðulega fullar af bílum og strætisvögnum en gangstéttar einnig mjög fjölfarnar og á sumum gatnamótum í borginni bíða iðulega 1.000 gangandi vegfarendur á rauðu ljósi, en kannski hundrað bílar og stætisvagnar í hverja átt, þ.e. í úthverfunum og enn fleiri bílar og gangandi í miðborginni. Þannig bíða gjarnan tvö til þrjú þúsund manns hverju sinni á slíkum gatnamótum, eða nálægt íbúafjölda Grindavíkur og myndi fjöldinn fylla nokkur sveitaþorp í grenndinni.vaknað í gvangsá


i


kantónsk gatan áttföld

hús á sjö hæðum

gul hreinleg björt

tröllaukin spjöld

nær og fjær

tákn án merkingar

tákn í ótal röðum

tákn út og suður

fjaðurmögnuð

brodddregin

listaform

í ljúfum myndum

merkingarvana

verslun hér hreinsun þar

kvenföt járnsmiðja tehús

óræðar dyr annarlegt innra

svarbikuð gata svarbláir staurar

svargaldrandi hangandi línur

óþrjótandi samskipti

leirmóskulegir kassar á húsum

er þetta sorp við vegg

hver etur úr haug

hraukur af sandbrúnum plastkössum

utan um mann á ryðskitnu reiðhjóli

kannski eineygðan

kona í blárri dragt

lághæluðum blánkuskóm

með lakkaðar neglur

indígóbláar

og slétta fínlega fingur

stígur svarta ferlega pedala

á glansandi gömlu reiðhjóli

í skuggsælum tröppum

kaunum sleginn betlari

bláskítugklætt úrkast

alþýðukapítalismans

með sofandi barn

á steyptri stétt


ii

kanínur í búri með fiskum ofar

rauðir fánar rauðar gulrenndar súlur

lúðrasveit leikur lag

úr tengslum við skilning

ruglandi sem í babel

undrandi að fólk skilji

bunandi orðaflaum

hljóð á tæpasta vaði

þögn á skilum

tónar í ómahvellum

hvers má sín skilningur

gegn framandi tónum

flæðandi leikandi

0 comments

Recent Posts

See All
 
Garibaldi  ehf
tölvupóstur garibaldi@garibaldi.is
© Garibaldi
iceland-flag-xl.jpg