Search

smávinir fagrir foldarskart komin út

Updated: Dec 4, 2019


Nú er ljóðabókin mín, smávinir fagrir foldarskart, komin úr prentun og fer í bókabúðir næstu daga.


Bókin er 176 bls. að stærð.

Kynningarverð er kr. 2.990.- ef pantað er hér á vefnum.


Garibaldi heimsótti Kína árið 2007 og flétta inn í ferðasögu sína sögur af fólkinu sem hann kynntist og pælingar um Maó og það þjóðskipulag sem ríkir í þessu fjölmenna ríki, um menningu og sögu lands og þjóðar með myndum úr þjóðsögum og ævintýrum þaðan ásamt myndum úr íslenskum veruleikum.


Titill bókarinnar, smávinir fagrir foldarskart, er fenginn úr Hulduljóðum Jónasar Hallgrímssonar sem lætur Eggert Ólafsson mæla þau orð. Eggert er þar í hlutverki landsföðurins mikla en í ljóðum Garibalda er Maó Zedong í því hlutverki. Í ljóðunum leikur Garibaldi með ljóð Maós sjálfs og kenningar hans í Rauða kverinu sem höfðu gríðarleg áhrif um allan heim á sínum tíma.


Ljóðin eru afar gagnrýnin á ástand mála í Kína og í þeim eru andstæðingar hins kommúníska þjóðskipulags kallaðir fram, svo sem skriðdrekamaðurinn og Liu Xiaobo sem hlaut friðarverðlaun Nóbels fyrir mannréttindabaráttu sína árið 2010.


Garibaldi dvaldi í borginni Gvangsá (Guangzhou) og ferðaðist um nágrenni hennar og skoðaði m.a. nokkur sveitaþorp sem bera allt annan svip en borgin. Ljóðin eru einnig inblásin af sögum af fólki sem Garibaldi kynntist og sögum sem það sagði af samferðafólki sínu sem og íhugun skáldsins að heimsókn lokinni.


smávinir fagrir foldarskart segja m.a. frá einni fjölskyldu í þrjár kynslóðir sem upplifir tíma kommúnisma í Kína og þær margvíslegu sviptingar sem honum fylgja. Gestinum er ákaflega vel tekið, hann kynnist sögu fjölskyldunnar og aðstæðum í samtímanum og því hvernig hinar gerræðislegu breytingar á samfélagi og menningu leika sjálfsvitund fólks. Ljóðin draga einnig fram kínverska sögu almennt á síðustu u.þ.b. hálfu öld í ferskum og fögrum myndum.


Í fróðlegum eftirmála fjallar Garibaldi um sitthvað í kínverskum málefnum sem kann að virka framandi í íslensku samhengi. Má nefna menningararfinn frá þeim Konfúsíusi, Búdda og Laoze, stökkið mikla, menningarbyltinguna, einsbarnslögin, ríkiskapítalismann, en einnig málefni kvenna og þær stóru gjár milli kynslóða sem þessi miklu umskipti hafa kallað yfir þjóðina. Ljóðin og eftirmálinn varpa óvæntu ljósi á hvað kínversk alþýða og íslensk eiga margt sameiginlegt.

0 comments

Recent Posts

See All