fræðistörf

Garibaldi er menntaður bókmenntafræðingur. Hann lauk BA prófi frá Háskóla Íslands árið 1989 og fór til framhaldsnáms við University of British Columbia í Vancouver í Kanada árið 1990. Þar lauk hann MA prófi árið 1992 og stundaði doktorsnám til ársloka 1995 en lauk ekki prófi. Hjá UBC var hann á hæsta námsstyrk öll árin.

Strax í BA námi hóf Garibaldi fræðistörf og ritstýrði með öðrum nemendum riti með þýddum fræðiritgerðum eftir valinkunna fræðimenn eins og Walter Benjamin, Georg Lukács og þá W.K. Wimsatt og Monroe C. Beardsley, Ismar. Raunsæi og marxismi, sem kom út 1990. Ári seinna, þegar hann var í fríi á Íslandi frá náminu erlendis lauk hann ritstjórn á verkinu, Spor í bókmenntafræði 20. aldar, en með honum unnu að því þáverandi kona hans Kristín Viðarsdóttir, og Kristín Birgisdóttir, en sumir textarnir í bókinni voru lengi notaðir við kennslu í Háskólanum.

Garibaldi safnaði greinum sínum um bókmennir í bókinni Sögunarkarl, goðverur, sjálf, sem kom út árið 2015. Greinarnar eru frá árunum 1988 til 2015 og fjalla um íslenskar bókmenntir eins og skáldsögurnar Leigjandann eftir Svövu Jakobsdóttur og Tangasögur Guðbergs Bergssonar, og vestur-íslenskar bókmenntir sem Garibaldi safnaði úrvali úr og gaf út með ítarlegum formála í ritinu Íslandslag. Íslensk-kanadískar bókmenntir frá 1870 til nútímans sem kom út árið 2006.

Í námi sínu lagði Garibaldi áherslu á teoretíska nálgun, ekki síst út frá hugmyndum Jacques Derrida um afbyggingu og Michels Foucault um vald og ögun, þekkingu og kynhneigð, en einnig hugmyndum Juliu Kristevu og Jacques Lacan um þróun og þroska sjálfsverunnar. Hefur Garibaldi einnig þýtt verk þeirra allra nema Lacans, mismikið þó, m.a. greinar eftir Derrida og Kristevu í Spor í bókmenntafræði, greinar eftir Foucault í Útisetur. Sambandi sturlunar, geðlækninga og bókmennta sem Matthías Viðar Sæmundsson ritstýrði og Alsæi, vald og þekking sem Garibaldi ritstýrði, en einnig þýddi hann bók Derrida Sporar. Stílar Nietzsches. Í síðastnefndu bókunum eru greinargóðir formálar Garibalda um helstu drætti í hugmyndum Foucaults og Derrida og þar með um ýmsa helstu hugmyndastrauma í bókmenntafræðum síðustu áratuga.

 

Um skeið vann Garibaldi að verkinu „Íslenskur bókmenntavísir“ sem kom aðeins út á netinu en var fellt þaðan brott síðar.

Um rit Garibalda á fræðasviðinu sjá ennfremur Þýdd rit og Ritaskrá.

Hægt er að lesa formála flestra ritanna hér á vefnum.

Spor í bókmenntafræði 20. aldar. Frá Shklovskíj til Foucault. Bókmenntafræðistofnun Háskóla Íslands. 1991.

226 bls.

Bókin hefur að geyma þýðingar á 10 ritgerðum sem tíðindum hafa sætt í vestrænni bókmenntaumræðu:

Viktor Shklovskíj: Listin sem tækni. Þýð. Árni Bergmann

T.S. Eliot: Hefðin og hæfileiki einstaklingsins. Þýð. Matthías Viðar Sæmundsson

Claude Levi-Strauss: Formgerðargreining goðsagna. Þýð. Gunnar Harðarson

Roman Jakobson: Tvær hliðar tungumálsins: myndhvörf og nafnskipti. Þýð. Kristín Birgisdóttir og Nanna Bjarnadóttir

Julia Kristeva: Orð, tvíröddun og skáldsaga. Þýð. Garðar Baldvinsson

Jacques Derrida: Formgerð, tákn og leikur í orðræðu mannvísindanna. Þýð. Garðar Baldvinsson

Umberto Eco: Um möguleikana á því að mynda fagurfræðileg boð á edenskri tungu. Þýð. Guðmundur Andri Thorsson

Roland Barthes: Dauði höfundarins. Þýð. Kristín Birgisdóttir og Kristín Viðarsdóttir

Roland Barthes: Frá verki til texta. Þýð. Guðlaug Richter

Michel Foucault: Skipan orðræðunnar. Þýð. Gunnar Harðarson

Auk þess er Formáli eftir Garðar.

Hægt að nálgast þrjár greinar hér fyrir neðan í pdf formi með því að smella á titlana:

Garðar Baldvinsson: Formáli.

Julia Kristeva: Orð, tvíröddun og skáldsaga. 

Jacques Derrida: Formgerð, tákn og leikur í orðræðu mannvísindanna.

Ritstjórn: Garðar Baldvinsson, Kristín Birgisdóttir og Kristín Viðarsdóttir.

Jacques Derrida: Sporar. Stílar Nietzsches. Bókmenntafræðistofnun Háskóla Íslands. 2003.

94 bls.

Þýðandi: Garðar Baldvinsson

Ritstjóri: Torfi H. Tulinius

Í Sporum. Stílum Nietzsches tengir Jacques Derrida spurningar um kynferði, kynhneigð, stjórnmál, skrif, æxlun, dauða og jafnvel veðrið á frumlegan og opinskáan hátt saman við ítarlega greiningu á þeirri ögrandi arfleifð sem Nietzsche lét nútímanum eftir.

     Nietzsche er iðulega gagnrýndur fyrir andúð á konum. Sporar er því viðeigandi nafn á þessari bók þar sem afbygging Derrida á merkingum Nietzsches hvetur lesendur örugglega sporum til frekari hugsunar og gagnrýni, ekki síst varðandi spurninguna um stílinn.

     Að margra dómi er Sporar auðlesnasta bók Derrida sem oft hefur verið gagnrýndur fyrir málaflækjur. Stílbrögð Derrida minna hér jafnvel á listdans með hugtök og penna. Hér býður Derrida upp í dans um innlendur heimspekingsins sem týndi regnhlífinni sinni en kvað skrif sín spretta úr móðurlífi hugans.

Garðar Baldvinsson: Meyjarhaft Derrida.

Michel Foucault: Alsæi, vald og þekking. Úrval greina og bókakafla. Bókmenntafræðistofnun Háskóla Íslands. 2005.

240 bls.

Ritstjóri: Garðar Baldvinsson

Formáli ritstjóra: „Alsætt líkamsvald. Um Michel Foucault“ eftir Garðar Baldvinsson.

Eftirfarandi kaflar eru þýddir í ritinu:

Lagsmeyjarnar

Hvað er höfundur?

Líkami hinna dæmdu

Alsæishyggja

Við hinir, viktoríumenn

Bælingartilgátan

Nietzsche, sifjafræði, saga

Michel Foucault var einn áhrifamesti hugsuður heims á sviðið mann- og félagsvísinda síðari hluta 20. aldar. Í bókum sínum fjallaði hann um það hvernig nútíminn væri skilgreindur, um forsendur hans og virkni. Foucault mótaði nýja aðferðafræði og hugsunarhátt, ekki síst með bókum sínum um fangelsismál og kynhneigð, og fór þar langt út fyrir flestar fyrri hefðir.

     Viðfangsefni Foucaults voru margvísleg og falla undir mörg fræðasvið, t.d. heimspeki, sagnfræði, sálfræði, málvísindi og bókmenntafræði.

     Meginkenningar hans lúta að tengslum valds og þekkingar, sem og orðræðukerfum í vestrænni hugsun. Hann gagnrýndi mjög félagslegar einingar sem ganga út frá samsemd og heildstæðni, ekki síst allt sem varðar kynhneigð og einskorðun hennar.

Grein eftir Þröst Helgason í Lesbók Morgunblaðsins 4. feb. 2006, bls. 11: „Að hugsa öðruvísi“.

Þröstur segir m.a.stórgóður inngangur Garðars Baldvinssonar um kenningar Foucaults ætti að veita hverjum sem er aðgang að [„Nietzsche, sifjafræði, saga“] eins og öðrum textum í bókinni“.

Íslandslag. Íslensk-kanadískar bókmenntir frá 1874 til nútímans. GB útgáfa. 2006.

Ritstjóri: Garðar Baldvinsson.

381 bls.

Mynd á framhlið Baldvin Baldvinsson.

15 höfundar sem skrifuðu á íslensku og 4 sem skrifa á ensku (Garðar þýddi úr ensku).

Hér er hægt að nálgast formála ritstjóra, „Íslensk-kanadískar bókmenntir í gegnum tíðina“.

 

Íslandslag er safn ljóða, smásagna og skáldsagnakafla eftir íslenska innflytjendur til Kanada og afkomendur þeirra allt frá árinu 1870 þegar vesturferðir hófust fyrir alvöru frá Íslandi.

     Strax við komuna til Vesturheims þurftu Íslendingarnir að endurskoða heimssýn sína, tungumál og menningu. Í bókmenntum urðu líka miklar breytingar, t.d. kom borgin með mannhafi sínu og firringu miklu fyrr inn í bókmenntir vestanhafs en hér á landi.  Einnig fengu hversdagslegir hlutir eins og rósin nýja merkingu.

     Fáfræði Ameríkumanna um Ísland birtist t.d. í spurningum um Íslendinga sem eskimóa og hvort þeir hafi komið alla leið með lest. Skáldin tjá ást sína til Íslands og Kanada og fjalla um örlög þeirra sem minna máttu sín. Saga Íslendinga í Vesturheimi býr yfir mikilli fjölbreytni sem kemur vel fram í bókmenntum þeirra.

Í formálanum „Íslensk-kanadískar bókmenntir í gegnum tíðina“ heldur Garðar því fram að íslenskir innflytjendur til Kanada hafi átt erfitt uppdráttar af því að menningu þeirra á Íslandi var í mörgu ábótavant. Þeir þekktu ekkert til borgarmenningar, stærðar landsins, jarðyrkju í nýja heiminum né höfðu þeir áður kynnst frelsi í trúmálum eða stjórnmálum, svo ekki sé minnst á frelsi til fjölskyldumyndunar.

Allt frá miðri átjándu öld höfðu Evrópubúar flykkst til Ameríku. Frá Norðurlöndum fóru menn að ferðast í hópum um 1830 þegar landnám í Bandaríkjunum var að komast vestur fyrir Michigan-vatn og Mississippi-ána. Tilkoma járnbrauta og gufuskipa um svipað leyti auðveldaði mjög öll ferðalög um heiminn.

 

Þegar frímerkið kom til sögunnar árið 1840 batnaði fréttaflutningur allur til mikilla muna í heiminum því allir gátu þá sent vinum og vandamönnum bréf fyrir smáura en ekki kýrverð eins og áður hafði tíðkast.

Sögunarkarl, goðverur, sjálf. Greinar um bókmenntir.  GB útgáfa. 2015.

Höfundur: Garðar Baldvinsson.

349 bls.

Mynd á framhlið Helgi Örn Helgason.

14 greinar auk ritdóma um bókmenntir, íslenskar og vestur-íslenskar. Efnisyfirlit er hér.

Vestur-Íslendingar stigu á land í nýjum heimi er vestur kom og þurftu að finna sér nýjar aðferðir við að tjá sig og þann nýja veruleika sem blasti við þeim í framandi aðstæðum. Bókmenntir íslensku nýbúanna þróuðust um margt öðruvísi en gerðist heima á Íslandi, bæði um efni og efnistök. Þegar vestur-íslenskir rithöfundar voru að kljást við nýjan veruleika og mörk tungumálsins voru höfundar hér á Fróni að færa út landamæri málsins í aðrar áttir en handan hafsins. Er í bókinn mest rætt um Jóhann Magnús Bjarnason, Guðrúnu Helgu Finnsdóttur, Lauru Goodman Salverson og Kristjönu Gunnars sem færir þessar bókmenntir inn á svið póstmódernisma með því t.d. að flækja tengsl tungumáls, veruleika og sjálfs, og að taka upp myndmál púsluspilsins sem eldri höfundar ýjuðu að snemma á 20. öld.

     Módernismi og síðar póstmódernismi síuðust inn og stundum með rykkjum bæði í íslenskar og vestur-íslenskar bókmenntir.

     Á sjöunda áratugnum var óvenjumikil gróska í sagnagerð hér á landi með höfundum eins og Ástu Sigurðardóttur, Guðbergi Bergssyni og Svövu Jakobsdóttur sem kollvörpuðu hefðbundnum hugmyndum um hvað væri saga og bókmenntir. Síðar urðu frekari umskipti í ljóðagerð með skáldum eins og Sigfúsi Bjartmarssyni og Gyrði Elíassyni sem líkja veruleika samtímans við tölvuleiki.

Garðar Baldvinsson. Formáli.

 
Garibaldi
tölvupóstur/e-mail garibaldi@garibaldi.is
© Garibaldi 2021
iceland-flag-xl.jpg