fræðistörf

Garðar Baldvinsson

 

Alsætt líkamsvald

Um Michel Foucault

 

Það sem sést má færa í orð,

en það sem er að sjá færist ekki yfir í orðin

Michel Foucault, Orð og hlutir

 

Maðurinn talar en það er af því að

táknið hefur gert hann að manni

Jacques Lacan, Skrif

 

Póst-strúktúralismi

Michel Foucault braust til forráða í frönsku menntalífi þegar strúktúralisminn eða formgerðarstefnan var í algleymingi um alla Vestur-Evrópu. Doktorsritgerð sína skrifaði hann um sturlun og skynsemi og lagði í ritum sínum áherslu á greiningu fyrirbæra og flokkun þeirra í anda þess sem hann kallaði síðan minjafræði (archéol­­ogie) en einnig þess sem hann kallaði eftir Nietzsche sifja­fræði (généalogie), þ.e. að safna skjölum og upplýsingum annars vegar um leið og hann reyndi að greina meginþræði þeirra form­gerða sem mót­uðu innihald þeirra, vinnslu og áhrif hins vegar. Sem hommi hafði hann einnig leyndan og ljósan áhuga á kynhneigð og þeim togstreitum valds og þekkingar sem kristölluðust í umfjöllun um hana, ekki síst baráttu þeirra fyrirmynda sem mótuðu um­fjöllunina við þau frávik sem áttu þar erfitt uppdráttar en höfðu engu að síður áhrif á hana, bæði leynd og ljós.

      Foucault kom fram á svipuðum tíma og fleiri upphafsmenn póst-strúktúralismans í Frakklandi, t.d. Jacques Derrida, Roland Barthes og Julia Kristeva. Foucault var sá eini af þessum sem var borinn og barnfæddur Frakki en hin voru öll aðflutt í franskri menningu, Derrida fæddur í Alsír, Barthes var Baski og Kristeva fædd í Búlgar­íu. Þau eiga það öll sameiginlegt að hefja feril sinn innan vébanda strúktúralískrar hugsunar þar sem talið var að tungumálið gæti höndlað heiminn, að maðurinn væri alvaldur menningar og sögu, og að þróunin gengi öll í þá átt að gera hann ókrýndan konung sköpunarverksins enda skyldu öll fræði snúast um manninn og aðgerðir hans sem væru til dýrðar þessari meginhugmynd um hann. Þannig er fræðaheimur sá sem þessir fræðimenn vaxa upp í að verulegu leyti helgaður hugmyndum um heildstæðni manns og heims, tungumáls og menningar, og að öll þróun sé fram á við og til enn meiri heildstæðni. Póst-strúktúralísk hugsun spratt auðvitað ekki öll fram í einu vetfangi heldur úr mörgum áttum og með mörgum ein­staklingum en hana einkennir viðleitni til að benda á allar þverstæðurnar og vitleysurnar í þessum grundvelli sjálfum, að tungumálið höndlaði ekki heiminn, að þróun væri hvorki samfelld né fram á við eða að mannshugmyndin heildstæða væri byggð á blekk­ingum.

      Reyndar má benda á ýmsar hliðstæður í því hvernig póst-strúkt­úralísk hugsun komst til æðstu metorða og því hvernig komm­ún­isminn féll um 1990. Óstöðug þróun mála, margvísleg rof á leiðinni, innri þverbrestir og fjölmargir litlir atburðir söfnuðust saman í sam­fellda runu sem braut beinlínis múra, kallaði fjölda fólks saman að einu óljósu og margbrotnu markmiði og myndaði úr þessum hræringum þúsund byltingar sem snerust fyrst og fremst um að misleitnin næði völdum. Engum blandast hugur um að stærsti ein­staki atburðurinn sem markað geti upphafið á hruni kommún­ism­ans er uppreisnin í Gdansk í Póllandi þegar Samstaða varð til 1980. Nýlegar umfjallanir um þessa atburði í íslenskum (og erlend­um) fjölmiðlum sýna að um þetta upphaf fallsins ríkir veruleg sátt. Sovét­tíminn í austur-evrópskum stjórnmálum hefur verið í stöðugri endurskoðun í þeim löndum þar sem kommúnisminn réð ríkjum og miklar rannsóknir farið fram á þeim tíma. Hin frægu Stasi-skjöl austur-þýskra stjórnvalda eru kannski augljósasta dæmi um það eftirlit sem haft var með fólki en ekki síður þær ráðstafanir sem stjórn­völd gripu til í þeim tilgangi að tryggja einsleitni og samfellu samfélagsins: Opinberlega var allt í lagi, allir þegnar unnu að sama markmiði og öll viðleitni til frávika, til að rjúfa þessa sátt og sam­fellu, var bæld niður af miklum krafti. Einstaklingar voru látnir fylgjast hver með öðrum og reyndar njósna hver um annan, allt frá neðstu lögum samfélagsins upp í æðstu stöður. Sovétskipulagið er ógnvæn­leg mynd þeirrar hugsjónar um manninn sem strúktúral­isminn byggði á. En andófið var ekki samfellt, það kom ekki allt frá sama stað, það byggði ekki á samtökum. Andrej Sakarov, Alexander Sols­én­itsín, Lech Walesa, Vaclav Havel og fleiri sem brutu niður kerfið og stjórnskipulagið með litlum athöfnum, litlum orðum, litlum til­finningum, eru lifandi myndir þess hvernig hugmyndin um tálsýn sam­fellunnar, heildstæðninnar og heimskrúnuna stenst ekki veruleikann eða það sanna.

      Að vísu er líka mikil blekking fólgin í þessari framsetningu minni sem gefur í skyn að þessi nöfn endurspegli sögulega þróun eða heims­viðburði. Í þessum nöfnum kristallast viðleitni til rofs, rofs í sögunni, rofs í samfellu og heildstæðni. Þessi nöfn safna kröftum í einstak­lingunum sem bera þau og í kringum þá og dreifa þessum kröftum út um allt í kringum sig, þau eru ofurseld valdbeitingu samfélagsins en í þessum einstaklingum býr líka vald sem bæði tekur við samfélagsvaldinu og viðheldur því og vinnur gegn því. Þannig eru ein­stak­lingarnir sem þessi nöfn tilheyra litlar og einstakar valda­vélar í samfélaginu sem vinna með heildarkröftunum og gegn þeim. Þær vinna eftir hagsmunum sem ganga beinlínis en ekki í beinum línum gegnum einstaklingana sem bera þessi nöfn og þannig út frá þeim inn í valdavélarnar í kringum þá. Athafnir þessara einstaklinga, orð þeirra, tilfinningar og hugsanir, vinna allar eftir leiðum þessara valdavéla í margar áttir. Sú bylting sem hófst með Samstöðu í Póllandi er sams konar kristall margra atburða sem gerast á mörgum sviðum og hafa ekki allir eitt markmið en sameinast í því að vera rof, runa rofa sem vinna gegn heildstæðninni, gegn tálsýn um manns­mynd sem á margt sameiginlegt með guðshugsjón kristinna manna.

      Byltingin sem hófst 1989 með hruni Berlínarmúrsins hófst alls ekki með þeim atburði heldur kristallar hann kraftaafstæður sem voru og eru langt í frá heildstæðar. Fyrir nokkrum dögum gerðust þeir atburðir í Frakklandi að ungmenni hófu að brenna bíla og hús og aðrar eigur og settu þannig borgarlíf víðsvegar í landinu á annan endann um nokkurra vikna skeið. Þessa atburði þurftu fjölmiðlar og stjórnmálamenn að skýra og var nærtækast að tengja þetta við trúar­brögð, kynþáttamál og stéttabaráttu, enda leit á yfirborðinu út sem um skipulagða starfsemi væri að ræða. Bentu þó sumir á að hér væru margar tilfinningar að fá útrás í sömu eða svipaðri mynd á mörgum stöðum – og vísuðu því til sönnunar á handahófskenndar uppreisnir í landinu árið 1968 sem æ síðan eru kenndar við ártalið, svo áhrifa­miklar urðu þær á öllum Vesturlöndum.

      Rósturnar í maí árið 1968 eru hins vegar stærsti viðburðurinn sem gerði póst-strúktúralisma gildandi í umræðunni. Boris Jeltsín greip tröllvaxið sögulegt tækifæri til að hrifsa til sín völd 1990 og hægt er að halda því fram að þessir frönsku fræðimenn hafi þegið fegins hendi þetta tækifæri til að hafa sitt að segja í menningunni og samfélaginu þegar öldurnar gengu yfir háskólana frönsku árið 1968. Þeir voru ungir fræðimenn með tíu til fimmtán ára reynslu af háskólakennslu og hvöttu nemendur óspart til að fylgja þeirri bylgju sem reið yfir háskólana og kallaði á að bylta stjórnkerfi þeirra, kennsluskipulagi, deildaskipulagi og síðan að láta kné fylgja kviði og umbylta stjórn­skipulagi samfélagsins, stéttamúrum þess og valdakerfi. Byltingin 1968 er kannski sá atburður sem kristallar skærast vald rofsins, vald nýs tungutaks, vald einstakra en ekki samleitinna eða samfelldra eða skipulagðra tilfinninga og hvata. Ef eitthvert ártal getur gegnt hlutverki fæðingarárs póst-strúktúral­ismans þá er það 1968. En þessi fæðing varð ekki af sjálfu sér frekar en aðrar fæðingar. Hún er af­leið­ing líkamlegra atburða sem eiga sér margvíslegan en alls ekki einsleitan aðdraganda þótt hægt sé að steypa alla slíka aðdraganda í eitt mót – án tillits til sannleika, sögu eða veru. Til að steypa í þetta mót þarf að sníða margt af þeirri sögulegu amöbu sem til fæðing­arinnar leiðir. Það þarf að beita söguna miklum strúktúralisma til að geta sett fingurinn beinlínis á þetta tiltekna ártal (eða nokkurt annað) eða gefa út fæðingarvottorð póst-strúktúralismans.

      Núna, árið 2005, þykir það sjálfsagður sannleikur að uppreisnin 1968 hafi verið samsafn krafta, að hver sögulegur atburður sé safn og krist­öllun margra misleitinna krafta og viðburða, að tungumálið dugi ekki til að höndla veruleika okkar, að veruleiki okkar sé margbrotinn, að hvorki sagan né þróunin stefni öll í eina og sömu átt. Það þykir líka sjálfsagt að hvert mál sé skoðað frá mörgum hliðum, að þekking á einu sviði geti komið að miklu gagni við að skoða viðfangsefni á öðru og ólíku sviði. Það þykir líka sjálfsagt í háskólum að kennarar jafnt sem nemendur komi að stjórnun skólans. Ekkert af þessu var sjálfgefið nokkurs staðar á Vesturlöndum árið 1968. Eins og allar góðar byltingar kemur þessi einnig aftan að sjálfri sér með ófyrirséðum afleiðingum, t.d. því að nú um stundir þykir mörgum það vinna gegn heildstæðni háskóla að kennarar annist stjórnun deilda og fleiri þátta í stjórnunarhluta skólarekstrarins.

 

Æviágrip Michels Foucault

Michel Foucault fæddist 15. október 1926 en lést 26. júní 1984 af afleiðingum alnæmis. Talið er  að hann hafi smitast af HIV-veirunni í San Fran­cisco en þar dvaldi hann oft við kennslu á áttunda og níunda áratugnum. Hann var skírður Paul-Michel Foucault en felldi síðar Pauls-nafnið niður. Eftir stríð hóf hann nám 1946 í École Normale Supérieure í París. Árið 1954 flúði hann Frakkland og dvaldi næstu árin í Svíþjóð og víðar en sneri aftur árið 1960 og hóf nám til að ljúka doktorsgráðu og stunda kennslu við Clermont-Ferrand-háskóla þar sem hann m.a. kynntist lífsförunauti sínum, Daniel Defert. Doktors­rit sitt, Folie et déraison: Histoire de la folie à l’âge classique [Sturlun og óskynsemi: Saga sturlunar á klassískum tíma],  lagði hann þar fram árið 1961 og með flaut (eins og tíðkast þar í landi) minni ritgerð með þýðingu á riti Immanuels Kants, Anthro­pologie in pragmatischer Hinsicht abgefaszt [Mannfræði frá sjónarmiði nytseminnar]. Árin 1966 til 1968 dvaldi hann með manni sínum í Túnis og skrifaði þar L’archéo­logie du savoir [Minjafræði þekkingarinnar] sem kom út 1969.

      Árið 1970 þáði hann mikla virðingarstöðu við hinn virta skóla Collège de France, og 2. desember sama ár flutti hann innsetningar­fyrirlestur sinn, L’ordre du discours [Skipan orðræðunnar][1] sem gefinn var út í bókarformi árið eftir. Þessa stöðu kallaði hann „prófessor í sögu hugsunarkerfa“ og gegndi henni til æviloka en kenndi einnig við bandaríska háskóla, SUNY í New York og skóla í Kaliforníu, allt frá 1970, m.a. í Berkeley. Hann tók mikinn þátt í menningu samkynhneigðra í San Francisco og ekki síst því sem kallað er S&M (sadó-masókismi), þar sem kvala- og píslarhvatir fá útrás. Árið 1975 var hann í Zabriskie Point í Þjóðgarðinum í Dauðadalnum og þar tók hann inn LSD sem hann kallaði bestu upplifun ævinnar. Árið 1978 ferðaðist hann tvisvar til Írans og ræddi mikið við fylgismenn klerkabyltingarinnar sem þá var í burðarliðnum. Síðan skrifaði hann fjölmargar greinar um málefni landsins sem flestar birtust í ítalska dagblaðinu Corriere della sera og voru bæði frönsku- og ensku­mælandi lesendum hans lítt kunnar uns þær birtust í enskri þýðingu á þessu ári: Janet Afary og Kevin B. Anderson, Foucault and the Iranian Revolution [Foucault og íranska byltingin], University of Chicago Press, 2005.

      Fyrsta bók Foucaults Maladie mentale et personnalité [Geðsjúkdómar og persónuleiki] (1954) var endurútgefin undir öðrum titli 1961, Maladie mentale et psychologie [Geðsjúkdómar og sálfræði], en hann afneitaði engu að síður báðum útgáfum hennar. Um ævina gaf hann út 11 bækur (1954–1984), þar af eina í þremur bindum, og fjölmargar ritgerðir og greinar auk þess sem út kom urmull af viðtölum við hann, í dagblöðum, tímaritum og bókum. Ennfremur voru fyrirlestrar hans við Collège de France gefnir út í nokkrum bind­um. Ritsafnið Dits et écrits sem út kom 1994 er í fjórum stórum bindum og inniheldur allt það efni sem hann lét eftir sig að frá­töldum bókunum og greinunum um Íran.

Um bókfræðiupplýsingar fyrir rit Foucaults vísast aftast í þennan inngang þar sem einnig er að finna skrá yfir efni sem komið hefur út á íslensku eftir hann. Hér á eftir eru hins vegar einfaldir titlar þeirra bóka sem Foucault ritaði:

Maladie mentale et personnalité. 1954. Endurútgefin og mjög endurskoðuð: Maladie mentale et psychologie. 1961.

Folie et déraison: Histoire de la folie à l’âge classique. 1961. Styttri útgáfa, Histoire de la folie, 1964.

Naissance de la clinique. Une archéologie du regard médical. 1963.

Raymond Roussel. 1963.

Les mots et les choses. Une archéologie des sciences humaines. 1966.

La pensée du dehors. 1966.

L’archéologie du savoir. 1969.

L’ordre du discours.

Ceci n’est pas une pipe. 1973.

Surveiller et punir. Naissance de la prison. 1975.

Histoire de la sexualité. 1. bindi: La Volonté de savoir. 1976. 2. bindi: L’Usage des plaisirs. 1984. 3. bindi: Le Souci de soi. 1984.

Á íslensku hafa verið þýddir nokkrir textar eftir Foucault, einstakar greinar sem birst hafa í tímaritum og verulegur hluti Histoire de la folie (1964) í Útisetum. Samband geð­lækninga, bókmennta og siðmenningar, sem Bókmenntafræðistofnun gaf út 1998 í ritstjórn Matthíasar Viðars Sæmundssonar. Í bókinni er einnig ítarlegur eftirmáli ritstjórans, „Blendin köllun postulans“, sem greinir frá ævi og fræði­störfum Foucaults.

 

Foucault gerðist félagi í Kommúnistaflokknum 1950 fyrir orð vinar síns, Louis Althussers, sem hafði mikil áhrif á líf hans. Hann snerist síðan gegn Sovétríkjum Stalíns og sagði sig úr flokknum 1953 vegna andúðar á alveldi Stalíns. Foucault var stundum harðorður í garð fyrri félaga sinna í flokknum með þeim afleiðingum m.a. að höfuðs­maður eldri kynslóðarinnar, tilvistarspekingurinn Jean-Paul Sartre, lét þau orð falla um bók Foucaults Les mots et les choses [Orð og hluti] (1966) að hún væri síðasta vígi borgarastéttarinnar. Raunar töldu marg­ir að með þeirri bók væri Foucault orðinn afturhaldsmaður. Foucault lét sér þetta í léttu rúmi liggja enda kvað hann Sartre hafa verið þrúgandi mollu yfir andlegu lífi Frakka eftir stríð. Spurning­um um það hver hann væri svaraði Foucault hins vegar gjarnan á þá lund að ekki væri hægt að spyrja hann að því né heldur að biðja hann að vera alltaf sá sami enda fælist líf hvers manns í því að vera síbreyti­legur.

      Haft hefur verið á orði að Foucault hafi trúað hverju einasta orði sem Friedrich Nietzsche skrifaði en rit hans las hann spjaldanna á milli á sjötta áratugnum og höfðu þau mikil áhrif á hugsun hans og líf. Einnig var hann alla tíð undir miklum áhrifum frá ritum Karls Marx, en meðal annarra áhrifavalda má nefna Georges Bataille og Maurice Blanchot, sem og Roland Barthes, Georges Canguilhem, Gilles Deleuze, Martin Heidegger, Jean Hippolyte og Maurice Merleau-Ponty. Viðfangsefni Foucaults voru að sama skapi marg­vísleg og falla undir margar greinar sem áður töldust heildstæðar, t.d. heimspeki, sagnfræði, sálfræði, málvísindi og bókmenntafræði. Áhrif hans liggja mest í mann- og félagsvísindum en þau má kannski meta á þann mælikvarða að oft er vitnað í rit hans og kenningar (sum bókasöfn telja um 9.000 rit sem vitna í bækur hans eða byggja á fræðum hans) í svo ólíkum fræðigreinum sem heimspeki, sögu, menningarfræðum, félagsfræðum, uppeldisfræðum, sálfræði, bók­menntafræði, femínisma, kynjafræðum, hinsegin­fræðum, stjórnunarfræðum, vísindaheimspeki, borgarskipulagsmálum og safnafræðum svo fátt eitt sé nefnt. 

      Foucault gagnrýndi í ritum sínum ýmsa þætti samfélagsins eins og geðlækninga-, heilbrigðis- og fangelsiskerfin. Auk þess beitti hann sér fyrir endurmati á öllu er snerti kynferðismál. Megin­kenningar hans lúta að valdi og tengslum valds og þekkingar, sem og orðræðukerfum í vestrænni hugsun. Hann var mjög gagnrýninn á félagslegar einingar sem ganga út frá samsemd og heildstæðni, ekki síst allt sem varðar kynhneigð, en einnig meðal glæpamanna og þeirra sem taka þátt í stjórnmálum. Saga kynhneigðarinnar (1976–1984) er gott dæmi um þær bækur Foucaults sem hann kallaði rannsóknarit því þar bendir hann á hvernig samsemd samkyn­hneigðra hefur færst frá athöfn til sjálfs­myndar. Orð og hlutir er hins vegar dæmi um aðferðabók enda leggur hann þar upp í mjög aðferða­fræði­lega skil­merkilega rannsókn á sögu Vesturlanda frá endurreisnarskeiðinu og skiptir þeirri sögu í fjóra hluta, endurreisn (til 1650), klassík (1650–1800), nútíma (1800–1950) og loks síðnútíma (eftir 1950).[2]

      Foucault mótaðist sem fræðimaður í veldi strúktúralismans og þess formalíska hugsunarkerfis sem þar ríkti. Hann lagði mikið á sig í ritum sínum til að greina sig frá strúktúralismanum þótt hann væri iðulega tengdur þeirri stefnu, einkum á sjöunda áratugnum. Foucault taldi sig fjalla um það hvernig nútíminn væri skilgreindur, um forsendur hans og virkni, og vildi því ekki heldur kalla sig póst-módernista eins og hann var oft talinn, en verður að kallast póst-strúktúralisti, enda mótaði hann vissulega nýja aðferðafræði og hugs­unarhátt, ekki síst með bókum sínum um fangelsismál og kyn­hneigð, og fór þar langt út fyrir öll mörk strúktúralískrar hefðar.

 

Maður og orðræða

Hér í þessari bók er þýddur fyrsti kafli úr bókinni Les mots et les choses [Orð og hlutir] frá 1966 en hún varð gríðarvinsæl í Frakklandi þrátt fyrir að hún væri mikil að vöxtum og ekki síður þung undir tönn. Höfundurinn vildi reyndar að hún héti L’ordre des choses [Skipan hlutanna] en lét undan kröfum útgefandans, Gallimard, um að breyta titlinum. Skipan hlutanna er hins vegar titillinn á enskri þýðingu bókarinnar (The Order of Things) og var þar fylgt ósk höf­undar. Sá titill er í meira samræmi við efni bókarinnar en einnig til dæmis við fyrrnefndan innsetningarfyrirlestur Foucaults, Skipan orðræðunnar.

      Í umræddri bók beinir Foucault sjónum að því hvernig umfjöllun, hugsunarkerfi og einstakar hugsunaryrðingar taka breytingum í tímans rás en skilja eftir sig menjar sem finna má (fyrir) á síðari tímum og hafa jafnvel áhrif á það sem þá er talið satt. Meðal athyglisverðustu hugmynda sem haldið er fram í bókinni – hug­mynd sem vakti að minnsta kosti mikla athygli og kannski einnig andmæli – var að maðurinn hefði ekki komið fram sem umfjöllunarefni í vísindum fyrr en á nýöld og að á sama hátt og aðrar slíkar orðræðuhugmyndir myndi hann líða undir lok sem slíkur drottnari orðræðu og hugsunar.

      Bókin hefst á greiningu á mynd eftir Diego Silva Velázquez, Las meninas [Lagsmeyjunum] og þeim leik sem sjónlínur, tákn og raun­verulegir hlutir leika í þeirri framsetningu sem myndin er. Hún er raunverulegur hlutur sem sýnir hluti sem voru eitt sinn til, hluti og fólk, meira að segja sjálfan málarann að mála mynd – sem gæti verið mynd af því sem við sjáum en líka mynd af því sem hann sér þaðan sem hann er á myndinni. Þessir hlutir allir og fólkið á myndinni leika hárfínan leik á henni en aðalatriðið er engu að síður eitthvað sem er utan myndarinnar, sem sést í spegli á nánast miðri mynd og allt bendir til að séu spænsku konungshjónin, Filippus IV og Maríanna. Þessi alvaldur, konungurinn, gegnir á myndinni svipuðu hlutverki og maðurinn sem umfjöllunar- og viðfangsefni í orðræð­unni sem nútíminn bjó til, eða kannski klassíski tíminn sem Matthías Viðar kallaði skynsemisöld (sjá Útisetur, s. 23).

      Einn kafli bókarinnar heitir „Greining endanleikans“ og hefst á lýsingu á því að þegar nútímafræðigreinarnar líffræði, hagfræði og textafræði spruttu af náttúrusögu, greiningu á auðmagni og hug­leiðingum um tungumálið, hafi klassísk orðræða umbreyst í orð­ræðu þar sem maðurinn er orðinn viðfangsefni þekkingar og sjálfs­vera heimsins, eða eins og Foucault segir, „sem ofurseldur alvaldur og áhorfandi sem horft er á tekur maðurinn staðinn sem tilheyrir kónginum, stað sem hann hafði þegar í Las meninas þótt raunveruleg nærvera hans kæmist þangað engan veginn“ (ensk þýð. s. 312). Á þessum grunni, að maðurinn sé í orðræðunni kóróna sköpunar­verks­ins en að skapandinn sé ekki síst orðræðan og umbreytingar hennar með þeim menjum sem eftir verða í henni að loknum breyt­ingum, greinir Foucault þessi þrjú svið fræða í bókinni, náttúru­fræði, hagfræði og málvísindi. Í bókinni kemur fram eitt lykilhugtaka Foucaults, þ.e. épistémè, sem hefur verið þýtt sem „þekkingarrými“ (Útisetur, s. 306) og „hugsunarkerfi“ (Eiríkur Guðmundsson Gefðu mér veröldina aftur, s. 54) þótt hvorugt dugi í sjálfu sér á íslensku, enda bregður höfundur þarna á leik með eldgamalt grískt orð sem er undirstaðan í hugtakinu þekkingarfræði, épistémologie.[3]

      „Épistémè“ verður varla skilið án þess að huga að öðrum hugtökum sem Foucault lagði fram eða notaði frá öðrum, sannleiksvilja, þekkingarvilja, þekkingarvaldi, lífvaldi og útilokunarháttum orð­ræðunnar, svo fátt eitt sé nefnt. Í Skipan orðræðunnar talar hann um að sannleikur sé ekki algildur og taki breytingum frá einu tíma­skeiði til annars, að við getum ekki náð sannleikanum heldur í besta falli, eins og forveri hans Canguilhem talaði um, verið „innan sann­leikans“ (Spor í bók­menntafræði, s. 204), þ.e. að við gætum aldrei annað en nálgast sann­leikann. Líkt og í myndinni spænsku væri hinn endanlegi eða algildi sannleikur í besta falli falinn á sama hátt og alvaldur myndarinnar, utan sviðsins, spegilmynd einhvers sem er ekki til, miðja sem allir leita að og þrá. Þessi gagnrýni Foucaults er á svipuðum slóðum og annarra póst-strúktúralista sem gagnrýndu hugtök fyrirbærafræðinnar á borð við hið yfirskilvitlega, hvort held­ur það var táknmið eða sjálfsvera. Yfirskilvitlega táknmiðið stendur ákaflega nærri þessum sannleika sem Foucault talar um, hinum algilda eða endanlega, sem engin leið er að höndla. Svo dæmi sé tekið lögðu Derrida og Kristeva áherslu á að tungumálið auð­veldaði okkur alls ekki að nálgast þessi fyrirbæri, yfirskilvitlega táknmiðið eða sjálfsveruna, heldur væru þau blekking sem sjálft tungumálið byggði á: Rétt eins og alvaldurinn er ekki á myndinni er engan sannleika að finna í tungumálinu, endanleg merking er ekki önnur en orðin ein segja, sjálfsveran sem ræður yfir tungumálinu er ekki annað en tilbúningur sjálfs tungumálsins. Eins og Foucault segir í Skipan orðræðunnar:

 

[...] vestræn hugsun [virðist] hafa gætt þess að orðræðan hefði sem minnst mögulegt rúm milli hugsunar og tals; hún virðist hafa gætt þess að orðræðan kæmi aðeins fram sem brú milli hugsunar og tjáningar; hún væri hugsunin íklædd táknum sínum og gerð sýnileg af orðum, eða á hinn bóginn væri það sjálf formgerð tungunnar sem sett væri af stað og framleiddi ákveðna afurð: merkingu (Spor í bókmenntafræði, s. 210).

 

Í grein sinni „Líkami minn, þessi eldur, þetta blað“ (Útisetur, 1998), sem skrifuð er til svars við fyrirlestri Jacques Derrida um bók Foucaults, Sturlun og óskynsemi (sem út kom 1961),[4] bendir Foucault einnig á útilokunaraðferð Descartes í hugleiðingu hans um cogito-ið í Hugleiðingum um frumspeki frá 1641. Descartes leggur í „Fyrstu hugleiðingu“ áherslu á að draumar, órar, vitfirring og hvatir tilheyri ekki vitundinni heldur séu þessir þættir andstæðir henni og utan við hana. Þannig segir hann í „Fyrstu hugleiðingu“: „[…] þótt skilningarvitin blekki okkur stundum […] skynja ég [...] eitt og annað með þeim sem ekki verður efazt um með neinu skynsamlegu móti. Til dæmis það að hér er ég, sit við arineld í vetrarslopp og held á þessu pappírsblaði, og annað þvíumlíkt. Hvernig gæti ég neitað því að þessar hendur eru mínar, þessi líkami minn?“[5] Þannig er skynjunin bæði villandi og sannverðug, getur bæði leitt mann á veg óranna og sann­leikans. Að sama skapi er líkaminn, sem hús eða bygging eða vél skynjunarinnar, bæði viðfangsefni skynjunar og sem slíkur sönnun fyrir sannleika skynjunar. Þannig má ljóst vera að Descartes beitir einmitt útilokun til að ná fram þeim sannleika sem vilji hans stendur til. Aðferð hans við þetta var þríþætt: að beita kerfisbundn­um efa til að útiloka sérhverja skoðun sem minnsti vafi léki á að væri sönn; að telja enga hugmynd fullvissa ef hún væri óskýr eða mót­sagna­kennd; og loks, að byggja alla þekkingu á fullvissu vitundar­innar en með því yrði hugsunin það eina sem efinn fengi ekki kollvarpað (sjá Garðar Baldvinsson, Skírnir 2000). Loks er nauðsynlegt að nefna að hér er einnig á ferðinni það sem Foucault talar um í sambandi við Las meninas, að það sem sést má færa í orð en það sem er að sjá færist ekki yfir í orðin („Lagsmeyjarnar“, sjá hér s. 60). Hvort tveggja er að það sem mælandi Descartes sér færist ekki í orðin, þ.e. sjálfur handleggur hans eða pappírinn eða eldurinn, heldur eru orðin ná­kvæmlega það sem Foucault heldur fram, þ.e. fram­setning, tákn, en það sem sér, mælandinn sjálfur, sjónskyn hans, augu eða hugsun, fær­ist alls ekki í orðin. Í tvennum skilningi, því að með orðinu „cogito“ er hann falinn í sjálfri sögninni, og svo dylur sjálft tungu­málið þann sem sér, það vantar alltaf í sjálft tungumálið þann sem talar, þann sem sér, þann sem skynjar. Hér kemur einnig til sú höf­undarvirkni sem Foucault ræðir um í greininni „Hvað er höfundur?“ hér á eftir, en nafnið Foucault gegnir hér einmitt því hlutverki að vera tákn fyrir þann sem á textana, þann sem við eign­um þessa texta, og ekki síst fyrir þá heild sem textarnir bjóða upp á, bæði þeir sem hér eru þýddir og þeir sem Foucault gaf út og hafa verið gefnir út í hans nafni. Auðvitað á það sama við um aðra höf­unda sem nefndir eru á nafn í þessum formála, allt frá Descartes til Jacques Derrida.

      Öfugt við Descartes sér Foucault þessa þætti líkamans og skynj­unarinnar, bæði þá sem eru villandi og sannferðugir, sem nærveruna utan myndarinnar ef svo má segja, næveruna sem gegnir  sömu stöðu og alvaldurinn á mynd Velázquez og stjórnar merkingar­framleiðslunni en er hvergi nálæg – nema sem draumur eða sturlun. Í riti Descartes sem skrifað er á latínu er ævinlega talað um cogito og þar kemur hin þekkta kennisetning hans „cogito ergo sum“ sem útleggst „ég hugsa, þess vegna er ég“, en undirritaður hefur fjallað um  hvernig orðið „cogito“ felur einmitt alvaldinn, þann sem talar, því að orðið sjálft geymir ekki frumlag sagnarinnar heldur er orðið svo að segja frumlagsháttur sagnarinnar (sjá Garðar Baldvinsson, Skírnir 2000). Hins vegar er þetta cogito skot­spónn margvíslegrar gagnrýni og fræða póst-strúktúralista og verður að teljast heilt épistémè í merkingu Foucaults, það stjórnar umræðu og vitund og jafnvel sannleika svo öldum skiptir, er lykilumfjöllunarefni í mannvísindum á síðari hluta 20. aldar og gegnir þar hlut­verki gamals upphafins efnis – en hefur engu að síður áhrif enn. Mér virðist það meginþáttur í épistémè að menjar þess gangi á milli tímaskeiða eins og cogito-ið og móti hugsun og hugs­unarkerfi í mis­miklum mæli. Þegar það hins vegar glatar miðju­stöðu sinni og færist yfir í önnur kerfi skapast ávallt sá möguleiki að ákveðinn þáttur í miðju­stöðu þess haldist við eins og gerðist einmitt með cogito Descartesar, en síðar einnig yfirskilvitlegu sjálfsveruna hjá Edmund Husserl, sem taldi ekki ósvipað Descartes að hvatir og tilfinningar rugluðu þessa sjálfsveru og gætu ekki talist eðlislægur þáttur hennar.

      Foucault var m.a. gagnrýndur fyrir að setja sturlunina fram, í Sturlun og óskynsemi, sem órætt hugtak annars vegar og endanlegt merkingarmið hins vegar. Þannig hafi hann fallið í þá gryfju sem hann benti á að saga Vesturlanda hefði fallið í varðandi sturlunina, þ.e. að viðhalda og útiloka í senn (sjá t.d. Shoshana Felman í Útiset­um, einkum s. 260). Sams konar gagnrýni beindi Derrida að texta Foucaults í fyrrnefndum fyrirlestri, að cogito-ið væri hjá honum það sem Descartes hefði rætt um en samt líka að einhverju leyti sturlað og að í bókinni slægi þessu tvennu svo mjög saman að erfitt væri að greina það í sundur, að hann hefði túlkað orð Descartes vægast sagt skringilega og loks gert því skóna að áhrif yrðingar Descartes hefðu runnið sitt skeið með klassíska tímabilinu (sjá Derrida, Útisetur, s. 159). Foucault lagði ákveðinn grunn að svari í bók sinni þegar hann sagðist ekki vera að skrifa sögu sturlunar heldur fornminja­fræði þeirrar þagnar sem umlukið hefði hugtakið (Folie et déraison, hér vitnað eftir Matthíasi Viðari Sæmundssyni, Útisetur, s. 279). En auðvitað má segja að allir falli undir þessa sök, að geta ekki haldið lykilhugtökum sínum aðgreindum frá hefðbundnum merkingar­heimum, frá merk­ingarmenjum fortíðarinnar, frá þeirri merkingu sem hugtök hafa á milli fræðigreina jafnvel þótt múrar þeirra séu sums staðar fallnir. Þetta er lykilatriði í póststrúktúralískri gagnrýni á fortíðina, að ekki sé hægt að losna undan hefðinni. Þannig heldur Derrida því víða fram að þegar hefðin er brotin sé hún í reynd stækkuð, að hvert skref út fyrir hefðina sé um leið innan hennar því með skrefinu stækki hefðin.

 

Vald

Hér í þessari bók eru þýddir tveir kaflar úr Surveillir et punir (1975) [Gæslu og refsingu] en í þeirri bók fjallar Foucault um það hvernig refsikerfið hefur breyst frá 17. öld til nútímans og hvernig vald og þekking eru notuð í vestrænum samfélögum til að láta þegn­ana sjálfa um að halda uppi aga innan heildarinnar. Þar heldur hann því einnig fram að líkaminn sé svið sem sífellt er notað til að aga ein­stak­linginn bæði með beinni beitingu líkamans eins og stjórn á hreyfingum en einnig með innri upplifun refsingar. Samkvæmt ögunarfræðum Foucaults er líkaminn agaður og ævarandi brennipunktur valds.

      Foucault lítur svo á að mótunin eigi sér stað í líkamanum, þar fari réttarhaldið fram og þar sé því framfylgt ef svo má segja, því öll ögun hafi það markmið að hafa stjórn á og móta virkni líkamans, hafa hemil á óreiðukenndum hreyfingum hans og ferlum. Umræða Foucaults um kyn og kynhneigð gengur þannig út á að sýna hvernig hugmyndir um kynferði hafa mótað líkamlega tjáningu kyn­hneigð­ar og þar með innri ferli líkamans. Kenning hans gerir ráð fyrir því að cogito-ið/skynsemin hefti líkamann, reyni að þurrka hann út og vera til án hans. Kenningin gerir líka ráð fyrir að til verði leikur eða vald sem brotið geti sér leið undan öguninni.

      Í 1. bindi af Sögu kynhneigðarinnar bendir Foucault á að líkaminn og ýmislegt af því sem sálgreining kallar dulvitund hafi ekki alltaf verið jafn útilokað eða bælt og sálgreining eða bókmenntafræði hafa látið í veðri vaka. Þannig heldur hann því fram að aftökur í upphafi nýaldar hafi samkvæmt lögum gegnt því hlutverki að koma í veg fyrir að fólk réðist gegn alvaldinum. Þetta kann að hljóma óþarflega sjálfsagt, en ályktun sú sem Foucault dregur af þessu bendir einmitt á að „dulvitundin“ hafi verið stjórntæki frá örófi alda. Ályktun hans er í stuttu máli sú að aftakan hafi verið gerð að opinberri táknmynd þess að alvaldurinn hefndi fyrir árás á sig með líkamlegum hætti og væri áhorfendum ætlað að taka inn á sig það vald sem í hefndinni felst: Áhorfandanum er með öðrum orðum ætlað að lifa sig inn í aftökuna, upplifa með sjálfum sér og í líkama sínum eða á honum þá skelfingu sem fórnarlambið lifir, vera virkur þátttakandi í aftökunni og draga ályktanir sem leiða til ákveðinnar breytni eða girða öllu heldur fyrir ákveðna hegðun, þ.e. að ráðast á alvaldinn. Ögunin á með öðrum orðum að tryggja alvaldinn í sessi.

      Í „Alsæishyggju“ hér í þessari bók, úr Gæslu og refsingu, ræðir Foucault einnig valdavenslin[6] sem felast í fangelsun og nefnir þar sérstaklega til sögu byggingu þá sem Jeremy Bentham hannaði á fyrri hluta 19. aldar og kallaði Panopticon eða Alsæisbygg­inguna,[7] eins konar byggingarlega mynd af auga sem sækir vald sitt einkum í sjónina sem algert valdatæki. Alsæisbyggingin er hringlaga hús með gegnsæjum klefum á jaðrinum en varðturni í miðjunni þar sem varð­maður situr og getur fylgst með öllu sem fram fer í klefunum í kring. Ögunargildi sitt fær byggingin ekki síst af sömu lögmálum og aftakan: Fangarnir gera sér hugmyndir um vald varð­mannsins og taka smám saman að beita sjálfa sig þessu valdi, færa varðmanninn inn í huga sér, ef svo má að orði komast, og láta hann þar hafa algert eftirlit með hegðun þeirra, hugsunum og tilfinn­ingum. Skiptir því í rauninni engu máli hvort varðmaðurinn er í turninum eða ekki, enda hafa fangarnir tekið að sér verk hans. Afl og máttur cogito-sins eins og Descartes sá það fyrir sér eru hér notuð á þá óreiðu sem býr í sjálfsverunni eða hverjum manni; ögunin byggir á því að vitundin sé klofin í geranda og viðfang og jafnvel sé ekki hægt að greina þar á milli þótt einsætt sé að slík tvíbendni sé fyrir hendi. Hugsunarvél cogito-sins er beitt til að túlka það sem fram fer, draga ályktanir og taka síðan ákvarðanir á grundvelli þeirra. En virkni ögunarinnar byggir ennfremur á því að hugsunarvélin hafi þegar verið forrituð til að túlka atburðina á ákveðinn hátt, draga tilteknar ályktanir og taka síðan fyrirfram ákveðnar ákvarðanir á þeim byggðar.[8] Þessi ögun þýðir með öðrum orðum að hugsunarvélin er ekki aðeins menguð af líkamanum og óreiðunni, heldur er hún allt annars eðlis en Descartes hugsaði sér hana; ekki hafin yfir söguna, menninguna eða aðstæðurnar heldur einmitt mótuð af þessum þáttum og virkur liður í athafnasemi þeirra. Ögunin byggir mjög á því að túlkunin hafi vald, en beitir því til að kúga vitundina en ekki frelsa hana eða efla. Í líkama fangans hefur búið um sig vald sem beitir vitund hans full­komnu alsæi svo að hægt er að tala um alsætt líkamsvald. Einnig mætti segja að túlkað vald sé fært inn í huga manns, að tungumálið nái hér, þ.e. í fanganum, að yfirfæra vald beinlínis úr einum stað (varð­turninum) í annan (fangaklefann). En sem lesendur Foucaults vitum við að yfirfærslan er blekking.

      Alsæisbyggingin og ögun hennar minnir ennfremur á rannsóknastofur þar sem búr og stýrð ferli eru notuð til að fylgjast með viðbrögðum og atferli dýra, t.d. í því skyni að búa til ný lyf, eða þegar sálfræðingar greina hegðunarmynstur til að leiða fram lög­mál og þar með möguleika á breyttum mynstrum. Tilgangur ögunar í Alsæisbyggingunni hvílir á skilyrtum viðbrögðum sem þó eru nógu flókin til að kalla megi þau net fremur en einstök viðbrögð. Einnig má minna á að hið alsjáandi auga Guðs er auðvitað hannað á sömu for­send­um þótt þær séu að sjálfsögðu ekki lagðar fram með sakramentunum.

      Að mati Benthams mátti beita ögunaraðferð hússins á mörg­um sviðum samfélagsins, t.d. við betrun í fangelsum, við kennslu og þjálf­un ýmiss konar. Með þessu bendir hann á að hvort sem ögun er góð eða slæm í sjálfu sér er hún snar þáttur í allri félagsmótun einstaklinga og allri yfirfærslu. Öfugt við það sem gerist þegar aftakan er opinbert sjónarspil og lykilatriðið í öllu ögunar­kerfi alvaldsins að hún fari raun­­veru­lega fram fyrir augum fjöldans þá er smásæja alsæis­ögunin óháð raunveruleikanum en treystir þess meira á möguleika og rökfærslur, sem og almenn mynstur. Eftirlit alsæis­ögunarinnar er innri skoðun þar sem mestu skiptir að klefabúarnir sjást en litlu varðar hvort þeir sjá. Lag  hússins tryggir að þeir taka inn á sig sjálft eftirlitið:

 

Eftirlitslögmálið hefur það markmið […] að gera gera [fangana] með­vitaða um að aðrir viti allt sem þeir gera, jafnvel þótt því sé ekki þannig varið („Panopticon“, s. 66).

 

      Það er einnig athyglisvert að í útskýringum sínum á því hvernig menn taka eftirlitið inn á sig, með því að sýnileiki líkamans um­breytist í auðsveipni hugans hjá íbúanum, þá dregur Bentham reynd­ar fram „réttinn uppi yfir“, líkt og Alsæisbyggingin sé forboði Réttarhaldanna hjá Kafka, sem bendir auðvitað sterkt á hugmyndir um épistémè eða jafnvel um textatengsl.[9] Samverkan auðsveipni og ögunar líkt og Alsæishúsið byggir á hafði (kaþólska) kirkjan tryggt sér um aldaraðir með skriftum, sem veita aflát með tæmingu hug­ans, og ekki síður með hugmyndinni um alsjáandi auga Guðs. Bentham bar þessi tvö ferli, að hlusta (játning) og horfa (eftirlit), einnig saman en að mati hans voru áhrif þeirra gerólík. Foucault ræðir skriftir einnig sem lið í orðræðuvæðingu kynlífsins í Sögu kynhneigðarinnar. Saman­burður Benthams á þessum tveimur ferlum, sem hann kallaði líka eyra Díónýsusar og Alsæisbyggingarinnar, dregur fram ögun og trúarsamfélag ásamt réttarhaldi sjálfsverunnar, og birtist svona:

 

Uppljóstrun er markmið hins fyrra: Hindrun hins síðarnefnda. Í fyrra tilvikinu er persónan sem ræður að njósna; í hinu síðara er hún að fylgjast með. Sú fyrri hefur það markmið að komast að leyndustu fylgsnum hjartans: Með því að einbeita sér að óduldum athöfnum, lætur sú síðari hugsanir og ímyndanir eftir réttinum uppi yfir. („Panopticon“, s. 66)

 

      Þótt bæði Bentham og Foucault leggi áherslu á að valdinu sé beitt á líkama einstaklingsins hvílir þessi beiting einkum á tveimur þáttum: Í fyrsta lagi er það sjónin – bæði sem eiginleiki gæslumannsins og íbúans – en hún tryggir þann möguleika að sá síðarnefndi álykti að sá fyrrnefndi líti í rauninni eftir honum. Þennan þátt varðar ekkert um hvort eftirlitið eigi sér stað í raun og veru: Það þarf enginn að vera í turninum, það þarf enginn að sjá íbúann, í rauninni þarf engan annan til en þennan íbúa. Það má alveg kljúfa þennan þátt, eins og Foucault gerir, í virkni þess sýnilega og þess sem ekki verður sannreynt, með því að fullyrða að Bentham hafi sett „fram þá meginreglu að það ætti að vera hægt að sjá valdið en ekki sannreyna það“ (sjá hér á eftir s. 138). Það er önnur trygging þess að þetta lög­mál virki að sjálfsveran sé álitin algild, að sjálfsveran sé föst sjálfs­mynd en af þessu leiðir einnig sú húmaníska trú sem gerir manninn að miðju heimsins. Með smávægilegri hliðrun má „sjá“ þessa bygg­ingu, bæði jaðarhúsið með klefunum og eftirlitsturninn í miðjunni, sem myndhverfingu fyrir nákvæmlega þetta algildi en einnig fyrir það að sjálfsveran sé margklofin. Rétt er þó að benda á að engin sam­skipti eru möguleg milli klefanna. Turninn líkist völundarhúsi með skásett­um opum sínum sem gera kleift að ganga þar úr einu rými í annað án þess að um það sjáist nokkur merki úr klefunum (sjá hér á eftir, s. 138–139).

      Hinn þátturinn lýtur að refsingu en með henni eru íbúarnir skil­yrtir til auðsveipni við gæslumanninn, eða jafnvel við „réttinn uppi yfir“. Eins og fyrri þátturinn byggir þessi á ályktunarhæfni íbúanna, eða öllu heldur á getu þeirra til að nota skynjun sína, þ.e. sjónina, sem tæki til að umbreyta sviði efnisins, massa (líkamanum) innan rýmisins, í svið tákna, í táknkerfi. Þessi þáttur í því að taka inn á sig sem byggist á táknkerfi er nákvæmlega það sem virðist grafa undan þeirri skoðun Foucaults að það sé fyrst og fremst líkaminn sem lendi í því sem hann kallar valdaafstæður eða valdavensl [rapport de pouvoir]. Efnislegur lík­aminn víkur fyrir líkama máltáknanna því að sem tákn er hann alltaf, eins og önnur tákn, fjarlægur efnislegri verund sinni (sbr. Saussure, Course in General Linguistics, s. 68). Þessi fjarlæging leiðir til þess sem mætti kalla brotthvarf líkamans eða líkamlegt brott­hvarf. Slíkt brotthvarf er ennfremur nátengt því ferli sem Foucault telur inn­byggt í nútímalega kristni, þ.e. að sálin sé „fangelsi líkamans“ (sjá hér á eftir, „Líkami hinna dæmdu“, s. 128). Þessi tvö hugtök, brotthvarf líkamans og fangelsun líkamans í sálinni, virðast einnig tengjast því ferli sem Deleuze og Guattari tala um undir heitinu „jöðrun“[10] sem varpar ljósi á það hvernig þrá beinist ekki að líkama heldur að táknum (Deleuze og Guattari, Kafka. Toward a minor literature, s. 13–15). Eins og fram er komið er það sem sést fært í orð en það sem er að sjá færist ekki í orðin.

 

Kynhneigð

Í 1. bindi af Sögu kynhneigðarinnar. Þekkingarviljanum (1976) setur Foucault fram þá tilgátu að „kyn“ sé afleiðing „kynhneigðar“,[11] sem aftur sé í megindráttum ákveðin gerð valdavensla sem stjórna ekki aðeins samskiptum kynjanna heldur einnig „sannleikum“ orðræðnanna um líffæri ólíkra líkama, um náttúruleg hlutverk líffæra og líkams­hluta, en einnig um vel- og vanlíðan sem fá má eða draga úr þessum líkömum.[12] Bókin geymir einnig snarpa ádeilu á sál­grein­ingu, einkum á bælingarkenningar hennar, og er sá kafli þýddur hér. Í bókinni ræðir Foucault ekki síst um það að á kynferðissviðinu ríki ákaflega sterk ögun sem krefjist skilyrðislausrar undirgefni við tvö hrein og algild viðmið, þ.e. kynin tvö, karl og konu, sem þó eru allt að því yfir­skilvitleg, um leið og þessi vensl framleiða bæði vald og orðræðu á sviði kynlífsins og um það (sjá t.d. s. 206–211 hér á eftir).[13] Meðal þess sem Foucault ræðir í bókinni er sjálfsfróun; kynlíf barna; eftirlit stofnana með kynhneigðum; augnaráð sem gælur; vald sem spyr, skoðar og leitar uppi kynlíf; vald sem vellíðan leikur um; líkamar sem orðræða festir í ákveðnu kyni; kynlíf hjóna; smættun kynlífs í samskipti hjóna. Tilgangur Foucaults er að sýna að tvö kyn séu alls­endis and­stæð kynhneigðum mannfólksins, að það hneigist, eins og víða kemur fram í ritum hans, til kynlífs án nákvæmra út­legginga á því með hverjum það er stundað, hvernig, hvenær, o.s.frv. Stephen Greenblatt hefur rakið sögur af nokkrum einstaklingum sem ekki falla undir þessar skilgreiningar, einsog Marie sem „stökk“ á milli „kynja“ og afhjúpaði sprotann („male rod“) sem gerði hana að karlmanni – og tók hún síðar upp nafnið Germain.[14] Foucault skrifaði einnig formála að dagbók Herculine Barbin sem var alin upp sem telpa en fékk dómsúrskurð um að hún skyldi vera karlmaður. Samkvæmt læknaskýrslum sem Foucault birtir með textanum er Herculine með eitthvað sem kann að vera annaðhvort lítið typpi eða stór snípur en leggöngin eru „blindgata“ eins og lækn­arnir orðuðu það.

      Hér er gaman að rifja upp að í bók sinni Bréfi til Láru (1924) lætur Þórbergur Þórðarson aðalkarlpersónuna verða barnshafandi og líða kvalir af þeim sökum. Slík lýsing hljómar fáránleg ekki síst þegar haft er í huga hversu ólík æxlunarfæri karla og kvenna eru. Hvernig gæti sæði frjóvgast í kynfærum karla? Hvernig gæti hann haft eggjastokka? Slíkar spurningar hefðu þó líklega hljómað fáránlegar á annan hátt í eyrum fræðimanna á 16. og 17. öld því þeir álitu æxlunarfæri kvenna vera spegilmynd af æxlunarfærum karla, einkum út frá viðmiði endurreisnarinnar um að aðeins væri til eitt kyn: Kyn karlsins. Þessa spegilmyndarkenningu má reyndar rekja að minnsta kosti aftur til Galens frá Pergamum á 3. öld fyrir Krists burð (sjá t.d. Greenblatt, bls. 78–80). Það er mikilvægt í þessari kenningu að hinn „inniliggjandi“ limur kvenna getur látið sæði í sam­ræmi við þá hugmynd að karlar og konur séu af tvennu sæði komin, karlkyns og kvenkyns, og að þroski þeirra lúti „forræði fremur en útilokun annars þeirra“ (Greenblatt, bls. 78). Með þessu er stoðum rennt undir hugmyndina um eitt kyn um leið og gölluðu ein­staklingunum (konunum) er gefið færi á að taka þátt í æxluninni. Að þessu leyti var þó í raun ekki til nein „kona“ eins og læknavísindasagnfræðingurinn Thomas Laqueur hefur bent á:

 

Bæði í textum og myndmáli [endurreisnarskeiðsins] er að finna nánast þrákelknislega ítrekun þar sem alltaf er farið í kringum og komið aftur að karlinum sem viðmiði. Varnarviðbrögð textans gefa til kynna að kynjapólitíkin samkvæmt orðanna hljóðan hafi vakið upp þá ítrekun textanna að í rauninni væru ekki til neinar konur [leturbreyting mín].15

 

Þótt mynd sem byggði á þessu líkani gæti ekki skýrt að sæði frjóvgist í æxlunarfærum karla var ekki hægt að útiloka að jafnvel smærri „eining“ kæmi við sögu, eins og Duval sannaði þegar hann kallaði fram sjálfsmynd Marie eða Marins le Marcis með því að fróa henni/honum en Duval átti að rannsaka þessa persónu sem kvaðst vera karl. Le Marcis þessi átti í nokkrum erfiðleikum með að sanna hvort tiltekið líffæri væri samanskroppinn limur eða „óeðlilega stór snípur“. Duval neri líffæri Marie svo það lét sæði. Dómstólar treystu sér ekki til að kveða upp úr um kyn þessa einstaklings sem þó var leyft að kalla sig karlmann og taka sér nafnið Marin; honum var bannað að hafa kynmök við hvort kyn sem væri að viðlagðri dauða­refsingu allt til tuttugu og fimm ára aldurs (Greenblatt, bls. 74). Þessi Marie eða Marin le Marcis var alin upp sem stúlka en kvæntist sem karlmaður þótt dómstólar hafi greinilega litið á þessa manneskju sem ein­stakling er getur hvorugt verið, sem fals, svik. Í þessu sambandi sýnir texti Laqueurs að orð sem höfð voru um æxlunarfæri kvenna á 16. og 17. öld voru margræð aðallega vegna líkansins um eitt kyn sem orðræða læknisfræðinnar leggur vissulega til ýmis rök, allt þar til svipuð sýn og er við lýði í dag tekur við. Jafnvel þótt orðin sjálf séu söm og áður vísa þau kannski til ólíkra hluta eða eru hlaðin ólíku merkingargildi. Orðið „vagina“ (á íslensku „skeið“ eða „slíður“) sem Renaldus Columbus kynnti árið 1559 er t.d. myndhverfing fyrir móðurlífið og gerir kynmök að jafngildi þess að renna sverði í slíður (sjá Laqueur, bls. 96–97). Í orðræðunni verða kynmök þar með fyrst og fremst karllegt athæfi á borð við mannsvíg, ekki síst í orðræðu femínisma sem telur ofbeldi og karlmennsku fara svo saman að konur geti ekki beitt ofbeldi. Foucault afneitar slíkri kynferðislegri menningarfræði og telur vald, ögun og orðræðu í sjálfu sér aldrei fara í kyngreinarálit, enda sé kyn afurð menningar, framleiðsla á borð við merkingu, hús eða ál, eitthvað eins og épistémè sem kemur og fer, og fær merkingu af orðræðunni sem það kemur fyrir í.

      Foucault setti sér það markmið að leysa ákveðið verk af hendi í bókinni um sögu kynhneigðarinnar, að skoða bælingartilgátu sál­greiningarinnar út frá þremur spurningum: Ríkir bæling á sviði kynlífsins? Felur bælingin í sér vald? Vinnur bælingin gegn ein­hverju valdi og er hún því eins konar rof í samhengi sögunnar? Í fyrri kaflanum sem hér er þýddur, „Við hinir, viktoríumenn“, ræðir hann tengsl valds, þekkingar og nautna en ekki síður tengsl ákveðinna banna við umræðu um kynlíf, en bönnin telur hann einnig vera orðræðusvið og því um leið svið þar sem valdið leikur lausum hala, bæði í því að banna og leyfa. Loks vekur hann máls á því að kannski sé það ekki bannið sem sé tálsýn, heldur felist tálsýnin ein­mitt í því að gera bannið að aðalatriði. Verkefni hans er að rann­saka or­ðræðu­væðingu kynlífsins og kanna hvort hún hafi jafnvel framleitt eða ýtt undir margar kynhneigðir fremur en leitt til bælingar.

      Í kaflanum „Bælingartilgátan“ hér á eftir gagn­rýnir Foucault þessa tilgátu og nefnir nokkur meginrök: Orðræðu­sviðið hefur magnast svo að helst má líkja við sprengingu. Um leið tvístrast sviðið þannig að fram hafa komið margar orðræðugreinar, bæði í ólíkum fræðigreinum en einnig beinlínis í fræðum um kynlíf. Jafnframt hefur þessi orðræðuvæðing ekki síst gerst í skjóli kirkjunnar og trúarinnar en þar á Foucault einkum við skriftir sem kaþólskir stunda. Fram koma nýir aðilar sem ræða kynlífið en einnig nýir aðilar sem taldir eru hafa kynhneigð, t.d. börn og unglingar, samkynhneigðir, geðsjúklingar og fangar svo dæmi séu tekin. En eins og í umræðunni um vald þá er hér ljóst að Foucault telur bannið vera vald, að bælingin framleiði vald til að ná fram öðrum mark­miðum, að magnleysið þiggi kraft þegar dregur úr krafti orðræð­unnar (sjá hér á eftir s. 223). Ein af merkari hug­myndum Foucaults kemur fram í þessu samhengi en það er hugtakið gagn-minni [contre-memoire] sem gengur einmitt út á að muna kannski það sem síst skyldi.

 

Foucault og Kristeva

Sérstök ástæða er til að setja orðræðu- og ögunarkenningar Foucaults í samband við hugmyndir Juliu Kristevu, einkum um textatengsl og sjálfsveru fyrir rétti og í mótun [sujet en procès], því svo gæti virst að um svipuð ferli sé að ræða. Hugmyndir Kristevu koma róti á tvo yfirskilvitlega hornsteina sjálfsverunnar, nærveru og vissu, og afbyggja þá jafnvel. Fyrra atriðið, textatengsl, bendir annars vegar á textalegt eðli orðræðna og hins vegar á vissan klofning milli (talandi) sjálfsveru og tungumáls (bæði í merkingunni tal og skrif). En áhersla Kristevu á líkamann og hlutverk hans í að trufla tungu­málið viðheldur að vissu marki nærverunni sem texta­tengslunum virð­ist ætlað að grafa undan. Samkvæmt Kristevu seytla líkamleg ferli inn í vitundina og frelsa hana að vissu leyti eða róta upp í rökvísi tungumálsins sem lýtur sömu lögmálum og cogito-ið.[16] Líkaminn og ferli hans, einkum þeir eiginleikar sem lúta að hreyf­ingu, flæði og jafnvel tilgangsleysi, eru í eðli sínu andstæð þeirri rök­vísi sem byggist annars vegar á þrenndinni frumlag–umsögn–andlag, en sem viðmið upphefur þessi þrennd frumlagið svo það verður að ger­anda.[17] Hins vegar byggir rökvísin á kerfi andstæðu­tvennda sem gerir tvenndina satt–ósatt æðri öllum öðrum en meðal hinna undir­skipuðu eru karl–kona, dagur–nótt, skynsemi–tilfinningar.[18] Fyrri þátt rökvísinnar má kalla setningafræðilegan en hinn síðari, sem byggir á valdi skilgreiningar, lögmála og Guðs, kallar Kristeva einræðan (Spor í bókmenntafræði, bls. 104). Sjálfsvera fyrir rétti og í mótun ber í sér lögmál og menningu sem og aðra texta, aðrar sjálfs­verur, söguna, sem rituð eru með ýmsu móti á hann.[19]

      Með hugmyndinni um kóruna[20] losar Kristeva sjálfsveruna síðan enn frekar frá hinum karllega, ödipuslega þegni freudískrar sál­greiningar. Kóran tengist semíótískri[21] hlið tungumálsins (sem er fyrst og fremst afleiðing líkamlegra áhlaupa [irruption]) og fylgir tilurð þegnsins lengra aftur í tíma en bæði Freud og Lacan gerðu, þ.e. til þess tíma og rýmis þegar kynferðið er að verða til nokkru fyrir máltöku. Með þessu er sem samband þegns og móður verði nánara, ekki eins vilhallt og jafnvel minna mótað af menningunni. Þetta nánara samband virðist einnig halda í menjar hinnar sym­bíósku fullnægju[22] frumbernskunnar en gerir líkamlegum ferl­um einnig auðveldara að brjóta á bak aftur linnulausar tilraunir rök­hugsunarinnar til að setja sig í stöðu alvalds yfir sjálfsverunni.

      Þótt Kristeva gefi þá mynd af sjálfsverunni að hún sé kynbundin, þ.e. að bæði kynferði hennar og kynfæri séu karlleg, þá er þessi sjálfsvera alger andstæða cogito-sins hjá Descartes því að hún getur ekki sagt eða jafnvel hugsað „ég hugsa, þess vegna er ég“. Mótun sjálfs­ver­unnar, réttarhald hennar, sá veruháttur hennar að sveiflast sífellt milli þess að vita og vita ekki, að reika frá áreiti við skynfærin til tungu­málsins til annars áreitis, ófær um að festa sig í einhverjum sessi (sjá Kristeva: „The Speaking Subject“); allt gerir þetta sjálfsveruna ákaflega fjölskrúðuga svo að helst minnir á biblíumyndina sem Roland Barthes sótti sér til að sýna hinn fjölskrúðuga nútíma­þegn: „Hers­ing heiti eg; því vér erum margir“ („Frá verki til texta“ s. 186 – Markús 5:9).[23] Descartes sá fullkomið samræmi milli cogito-sins og mállega frumlagsins „ég“ sem Nietzsche afbyggði að nokkru t.d. í um­ræðu sinni um viljann. Fræði á mörkum strúkt­úralisma og póst­strúktúralisma finna ekki heldur slíkt samræmi í sjálfsverunni heldur líta á hana sem hendingu eða efni til að halda málinu saman og þurr­ausa það í senn (sjá t.d. Barthes: „Dauði höf­undarins“, s. 176). Um leið og Kristeva áréttar þetta samloðunar­hlutverk tengsl­anna milli sjálfs­veru þekkingar og orðræðu hennar bendir hún ennfremur á að orð­ræða kartesískrar vitundar og aka­dem­ísk orð­ræða búa báðar að formgerð hjálparmáls sem „viðheldur samfellu bæði máltáknsins og setningagerðarinnar: Sjálfsveran í orðræðu þekkingarinnar er ekki sjálfs­vera fyrir rétti; þvert á móti er staða hennar í eðli sínu jafn­gild stöðu yfirskilvitlega sjálfsins hjá Husserl“ (Kristeva: „The Speaking Subject“, s. 215).[24]

      Fyrir Kristevu kemur samband cogito-sins og líkamlegra áhlaupa [irruption] einkar skýrt fram í venslum ritunar, refsingar og mótunar sjálfsveru sem er að mótast í réttarhöldum, þ.e. að kljást við það að sjá eitthvert vit í heiminum:

 

Hér erum við andspænis því sem ég vil kalla „betrunarskilyrði“ þekkingar en þó einkum táknfræði [sèmiologie]: Að vera fangi merkingar er það að taka með í reikninginn réttarhald merkingarinnar, að vera múruð inni í yfirskilvitlega sjálfinu er að marka fyrir ferð sjálfs­veru fyrir rétti, í mótun: en procès (Kristeva: „The Speaking Subject“, s. 216).

 

      Ögunarkenning Foucaults er gagnólík hugmyndum Juliu Kristevu. Umfram allt lítur Kristeva á líkamann, með hvötum sínum og áhlaupum eða truflunum skynseminnar, sem frelsunarlögmál og ferli hans vinna að hennar mati gegn ögun réttarhalds og mótunar. Hin ýmsu ferli líkamans, symbíósan og fullnægja [jouissance] brjóta að mati Kristevu upp stirðnuð form indó-evrópsks tungumáls. „Betrunarskilyrðin“ sem Kristeva nefnir eru meðal annars þau að sjálfsveran tekur inn á sig ögunarferlin sem hún er ofurseld. Á aðra hönd er merkingin fangelsi og sjálfsveran upp­byggð sem veggir, á hina er þetta mótþróafulla ég ófært um að kom­ast undan formgerðareðli tungumálsins og þar með kerfisins sem það vill brjótast út úr. Fullnægjan og leikurinn eru þó ákveðin leið undan aganum, en vegna tengsla sinna við formgerð tungumálsins leitar frelsið alltaf aftur í far agans. Þannig má segja að þessi sjálfs­vera sé í svipuðum sporum og Foucault var gagnrýndur fyrir varð­andi sturlunarbók sína, að reyna við það óræða í sífelldum kappróðri sínum á merk­ingarmiðin.

      Mynd Kristevu vekur upp hugmyndir eins og hjá Nietzsche um „fangelsi tungumálsins“ (sem Fredric Jameson endurvakti í bók sinni með þessum titli),[25] eða hugmynd Martins Heidegger um að „tungumálið er hús Verunnar. Í híbýlum hennar býr maðurinn“[26] sem aftur vekur upp hugmynd hans um að manninum sé kastað inn í heiminn og þurfi að lifa við hann einkum með túlkun, þ.e. í gegnum tungumálið. Sjálfsvera fyrir rétti og í mótun [sujet en procès] er myndhverfð mynd af myndhverfingu og gæti því lagt áherslu á það og hulið í senn að hornsteinn hugtaksins er sannleikurinn, bæði á sviði stjórnmála og málvísinda. Eitt viðbragð við þessari hendingu og málvísindalegri stöðu sjálfsverunnar er auðvitað frelsi, og ekki síst sá  leikur sem Kristeva, Derrida og Barthes mæla öll fyrir, á sama hátt og Foucault sér möguleika okkar ekki síst í rofunum, glufum sögunnar, kerfisins, ögunarinnar.

      Fyrir Foucault gerist mótunin hins vegar ekki í tungumálinu eða í vitundinni heldur í líkamanum, þar fer réttarhaldið og ögunin fram og þar er því framfylgt ef svo má segja, því öll ögun hefur það markmið að hafa stjórn á og móta virkni líkamans, hafa hemil á óreiðukenndum hreyfingum hans og ferlum. Umræða Foucaults um kyn og kynhneigð gengur þannig út á að sýna hvernig hugmyndir um kynferði hafa mótað líkamlega tjáningu kynhneigðar og þar með innri ferli líkamans, sbr. líka fyrrnefnda hugmynd hans að sálin sé fangelsi líkamans (hér á eftir s. 127). Fyrir honum liggur ekkert frelsi í líkamlegum ferlum sem slíkum, hvað þá að þau stefni öll í frelsisátt (eða yfirleitt í eina átt), heldur búa möguleikar frelsis í glufum, í rofunum, í bilum sem leika um valdaafstæðurnar og í þeim. Báðar kenningarnar gera þó ráð fyrir því að cogito-ið hefti eða skapi möguleika til að hefta lík­amann, reyni að þurrka hann út og vera til án hans, en einnig að í líkamanum verði til leikur eða vald sem brotið geti sér leið undan öguninni. Ljóst er þó að fyrir báðum, Foucault og Kristevu, er líkaminn heftur af öflum sem koma að hluta til að utan en orka tvímælalaust innan í honum, að vitundin að hluta eða öllu vinni að þessari heftingu. Munurinn liggur í merk­ingar­framleiðslu og sálinni sem dýflissu hins líkamlega.

 

Að móta heiminn og fá’ða

Foucault var hommi og rannsakaði kynhneigð út frá þessari lykil­forsendu lífs síns. Saga kynhneigðarinnar er ekki saga þess megin­straums sem ætla mætti af titlinum heldur einmitt rannsókn á kynhneigðum, þeim aragrúa kynhneigða sem höfundur komst yfir að lesa um eða upplifa. Verkið er þannig eins og þegar er sagt reynslu­bók, bók sem verður til við ritunina og rannsóknina. Margir gagn­rýndu höfundinn fyrir það að verða í seinni bindunum tveimur of hefðbundinn í framsetningu og það sem verra væri, of hefðbundinn í hugsun, taka hefðbundnar orðræður til athugunar, samkynhneigð í Grikklandi til forna í öðru bindinu, en skoða sjálfs­veruna sem sjálfgefna í þriðja og síðasta bindinu. Rannsókn Foucaults í fyrsta bindinu á því hvað kyn og kynhneigð merkir, hvaða áhrif hljótast af orðræðuvæðingu kynlífsins og síaukinni viðurkenningu á fjölbreytt­um kynhneigðum, hvötum og athöfnum á kynlífssviðinu, fylgdi ekki aðeins upplifun hans heldur hafði hún gríðarleg áhrif á mörgum sviðum menningar­innar ekki síst í allri umræðu um kyn­hneigð og kynlíf. Má fullyrða að bókin hafi valdið sprengingu í því að hommar og lesbíur og aðrir, sem ekki hafa „rétta“ kynhneigð, tóku að koma út úr skápnum og sættast við eigin kynhneigð en ekki síður í því að al­menningur viðurkenndi aðra kynhneigð en hina „einu sönnu“ gagnkynhneigð. Ekki vegna þess að höfundur staglað­ist á samkyn­hneigð heldur þvert á móti þá ítrekaði hann æ ofan í æ að kyn og kynhneigð væru ekki það sama, að kynlíf og kyn, eða kynlíf og kyn­hneigð væru ólíkar hliðar á sama máli, sem hann skil­greindi síðan ekki nákvæmlega í bókinni. En víst má telja að fyrir honum var þetta mál leikur sem m.a. má sjá í því að hann segir söguna af manni einum sem dæmdur var í ævi­langt fangelsi fyrir kyn­ferðislegar „gælur“ við barn eða ung­­ling, og hafa ýmsar getgátur verið uppi um að eina ástæða þess að sú saga en ekki einhver önnur var sögð sé einmitt sú að þessi maður hét Jouy, sem í framburði hljóm­lík­ist nokkuð sögninni jouir sem þýðir „að njóta“ eða, í sértækari merk­ingu, „að fá það“, og tengist fullnægjunni sem jouissance ber með sér.

 

Þýðing á textum Foucaults

Allar þýðingar eru vandasamar og krefjast mikillar nákvæmni við að yfirfæra merkingu sem þýðandinn telur vera að finna í frum­text­anum. Hluti af vandanum er sá sem hér hefur verið fjallað um, að þótt hægt sé að færa umheim mannsins í orð er það hvorki umheimurinn né sá sem sér sem færist yfir í orðin. Þannig hefur eitthvað orðið útundan í sjálfri færslunni frá veruleikanum yfir í tungumálið. Þýðandinn er ekki sá meistari sem höfundurinn er heldur alltaf á vissan hátt þý hans, sem Ítalir kalla svikara.

      Um leið og ég þakka meðþýðendum mínum afar ánægjulegt samstarf – sem ég vona að hafi einnig borið góðan ávöxt – í þessu erfiða og skemmtilega verkefni að koma textum Foucaults yfir á íslenskt mál er rétt að benda á nokkur atriði sem ollu okkur sér­stök­um heilabrotum. Þau orð Foucaults sem vitnað er til fremst og reynd­ar nokkrum sinnum í þessum inngangi sýna þennan vanda afskap­lega vel, en auk þess sem íslensk merking þeirra leggur áherslu á mismun þess sem sést og þess sem er sagt þá eru frönsku orðin ekkert sérlega árennileg þótt þau séu afskaplega einföld í sniðum. Það liggur þannig nokkuð í augum uppi að það sem er ósýnilegt sést ekki, en er hægt að þýða „l’invisibilité“ með „það sem ekki sést“? Hversu langt á þýlyndið við meistarann að ganga?

      Í þýðingu þessarar bókar var ákveðið að láta einfalda framsetn­ingu ganga fyrir en þýða alla jafna sjálfstæð hugtök og ekki síst þau frumlegustu sem næst bókstaflegri merkingu í frönskunni. Þannig er t.d. vald-nautnir þýðing á „pouvoir-plaisir“ og gagn-minni á „contre-mémoire“. Hins vegar þarf iðulega að sveigja reglurnar og jafn­vel brjóta þær algerlega. Sú varð raunin og leikurinn t.d. með „micro­physique du pouvoir“ sem Björn Þorsteinsson smíðaði fyrir hugtakið „smásæ líkamstækni valdsins“ þótt regla okkar um bókstafsmerkingu hefði kallað á „örlíkamstækni“ sem kom reyndar aldrei til greina. Eitt hugtak öðrum fremur hefur öðlast sess í tungu­málum Evrópu og víðar úr forða Foucaults en þar á ég við ensku orðmyndirnar Panopticon og tengt því panopticism (á frönsku Panoptique og panoptisme). Í tungum nágranna­land­anna eru þessi orð látin óþýdd, þ.e. tekin beint upp úr texta Foucaults. Þessi hugtök eiga rætur í textum breska heim­spekingsins Jeremys Bentham og koma þau fram í textanum sem hér er kallaður Alsæishyggja úr bókinni Surveillir et punir. Held ég að þýðandinn hafi hér hitt á einstaklega gott og þægilegt orð á íslensku sem hefur einnig þann kost að vera gagnsætt auk þess sem „alsæi“ er afar stutt orð. Loks er sérstaklega erfitt að koma einni grundvallarhugsun Foucaults yfir á íslensku, en hún er sú að valdi sé beitt en að það beiti sér einnig sjálft einhvern veginn. Þessi hugsun birtist ekki síst í afturbeygðu sögninni sem almennt er notuð um vald, þ.e. „s’excercer“, en slíkar sagnir eru algengar í frönsku jafnt sem íslensku. Vegna hugsunar Foucaults var því nauðsynlegt að bregða á þá nýjung að segja að vald „beiti sér“ sem er þó gömul og gegn beyging sagnar­innar en er iðulega notuð um fólk að grípa til máttar síns. Loks er þess að geta að franska orðið pouvoir merkir einnig getu, eins og þegar sagt er að eitthvað sé í valdi einhvers eða hann valdi einhverju.

      Foucault beitir auðvitað margvíslegum brögðum til að koma sérkennilegum hugmyndum eða erlendum orðum á framfæri. Í þessari þýðingu var sú stefna tekin að fylgja höfundinum stíft eftir í þessu og láta allar gæsalappir, sviga og erlend orð fylgja eins og hann notaði. Þess vegna eru allar gæsalappir í texta Foucaults frá honum komnar sem og svigar. Þegar þýðandi taldi ástæðu til að hafa hugtak eða orð Foucaults inni í meginmálinu þá setti hann slíkt í hornklofa. Varð­andi bókfræðilegar upplýsingar í neðanmálsgreinum var þeirri stefnu fylgt að upprunalegur titill stæði ávallt fremst í upptalningu en íslensk­ur titill innan hornklofa. Að öðru leyti þýða hornklofar í neðan­málsgreinum innskot þýðanda.

      Frönsk heimspekihefð er rík af dæmum um að höfundar vinni með erlenda texta sem þeir ýmist þýða sjálfir eða hafa lesið í þýðing­um en vitna ekki beinlínis til. Þannig er Foucault farið og einkum í greininni „Nietzsche, sifjafræði, saga“ styðst hann við texta sem hann greinir aldrei frá nema með titlum og tilvísunarnúmerum. Ekki er gott að segja hvernig meðhöndlun eða samskipti hans hafa verið við þessa texta en ljóst varð við samanburð við frumtexta Nietzsches að þýðingarnar voru á köflum ónákvæmar og jafnvel rangar. Vel má hugsa sér að lesandinn eigi heimtingu á að sjá þá þýsku texta sem þýddir eru í texta Foucaults svo hægt sé að bera þá saman. Að vand­lega athuguðu máli var þó ákveðið, einkum á þeirri forsendu að rugla ekki lesandann um of heldur einfalda fyrir honum lesturinn, að þýða frekar þýskuna athugasemdalaust almennt en geta þess sérstaklega þegar eitthvað væri sérlega bogið við frönskuna. Reyndar var aðeins á einum stað merkingu snúið algerlega á haus, eins og þýðandinn bendir á í neðanmálsgrein, þegar Foucault kveður Nietzsche hafa haldið því fram að skynsemin hafi komið fram á full­komlega skyn­samlegan hátt – en raunin er sú að Nietzsche heldur hinu gagnstæða fram, þ.e. að skynsemin hafi komið fram á óskynsamlegan hátt!

 

Þakkir

Þessi bók er hluti af ritröð Bókmenntafræðistofnunar Háskóla Íslands, Þýðingum, sem var hleypt af stokkunum árið 2003. Ritstjóri ritraðarinnar er Guðrún Nordal og þakka ég henni samstarfið og einstaklega lipra yfirumsjón með þessu verki. Björn Þorsteinsson og Sigurður Ingólfsson sem unnið hafa ásamt mér að þýðingunni eiga mikið lof skilið og þakka ég þeim einnig afar frjóa samvinnu og umræður um textana. Eins og ritstjóri Þýðinga tekur fram í inngangi sínum hefur verk þetta hlotið styrki frá nokkrum sjóðum, Menn­ingar­­áætlun Evrópu, Þýðingarsjóði og Háskólasjóði, sem ber einnig sérstaklega að þakka.

      Bók sem þessi er vonandi fengur fyrir íslenska menningu og vona ég að lesendur fái notið kenninga Foucaults og ekki síður textans.

 

 

Heimildir sem notaðar eru í formála (aðrar en bækur eftir Foucault):

Ástráður Eysteinsson. „Myndbrot frá barnæsku. Í tilefni af sögum Gyrðis Elíassonar“.  Umbrot.  Bókmenntir og nútími. Háskólaútgáfan. 1999.

Barthes, Roland. Le plaisir du texte. París, Seuil. 1973.

Barthes, Roland. „De l’œuvre au texte“, 1971. Ísl. þýð. Guðlaug Richter. „Frá verki til texta“. Í Spor í bókmenntafræði 20. aldar. BHÍ. 1991.

Barthes, Roland. „La mort de l’auteur“, 1968. Ísl. þýð. Kristín Birgisdóttir og Kristín Viðarsdóttir. „Dauði höfundarins“. Í Spor í bókmenntafræði 20. aldar. BHÍ. 1991.

Bentham, Jeremy. „Panopticon“. Í The Works of Jeremy Bentham, ritstj. John Bowring. London, 1838-1843. 4. bindi. Endurútgefið, New York 1962.

Butler, Judith. Gender Trouble: Feminism and the Subversion of Identity. New York og London, Routledge. 1990.

Cixous, Hélène. Sorties. París, 10/18. 1975.

Deleuze, Gilles og Félix Guattari. Kafka. Toward a Minor Literature. Ensk þýð. Dana Polan. Minneapolis, University of Minnesota Press. 1986.

Derrida, Jacques: De la grammatologie. París, Minuit. 1967. Ensk þýð. Gayatri Chakravorty Spivak. Of Grammatology. Baltimore, Johns Hopkins University Press. 1974.

Derrida, Jacques. „Cogito et histoire de la folie“, 1967. Ísl. þýð. Ólöf Pétursdóttir. „Cogito og saga sturlunar“. Í Útisetur. Samband geðlækninga, bókmennta og siðmenningar. BHÍ. 1998.

Descartes, René. Hugleiðingar um frumspeki. Þorsteinn Gylfason þýddi. Hið íslenzka bókmenntafélag. 2001.

Eiríkur Guðmundsson. Gefðu mér veröldina aftur. Um sjálfsævisöguleg skrif Íslendinga á átjándu og nítjándu öld með hliðsjón af hugmyndum Michels Foucault. Bókmenntafræðistofnun HÍ. 1998.

Felman, Shoshana. „Foucault/Derrida: The Madness of the Thinking /Speaking Subject“. Í bók hennar, Writing and Madness. Ithaca, Cornell University Press. 1985. Ísl. þýð. Garðar Baldvinsson. „Foucault/Derrida. Sturlun þess sem hugsar/talar“. Í Útisetur. Samband geðlækninga, bók-mennta og siðmenningar. BHÍ. 1998.

Foucault, Michel. „Présentation“. Í Herculine Barbin, dite Alexina B. Ritstj. Michel Foucault. París, Gallimard, coll. 'Les Vies parallèles', 1978. Ensk þýð. Herculine Barbin. New York 1980.

Garðar Baldvinsson, Kristín Birgisdóttir, Kristín Viðarsdóttir (ritstj.). Spor í bókmenntafræði 20. aldar. Frá Shklovskíj til Foucault. BHÍ. 1991.

Garðar Baldvinsson. „Þegn, líkami, kyn“. Skírnir 2000, vor.

Greenblatt, Stephen. „Fiction and Friction“. Shakespearean Negotiations. The Circulation of Social Energy in Renaissance England. Berkeley og Los Angeles, University of California Press. £1988.

Halldór Laxness. Af menníngarástandi. Vaka-Helgafell. 1986. Upp­haflega í Morgunblaðinu, 14. des. 1924.

Heidegger, Martin. Brief über den Humanismus. Bern, A. Francke Verlag. 1947. Ensk þýð. Frank A. Capuzzi: „Letter on Humanism“. Í Martin  Heidegger. Basic Writings. Revised & Expanded Edition. Ten Key Essays plus the Introduction to Being and Time. David FarrellKrell (ritstj.). New York, Harper. 1993.

Helga Kress. „Dæmd til að hrekjast. Um ástina, karlveldið og kven­lega sjálfs­mynd í Tímaþjófnum eftir Steinunni Sigurðardóttur“. Tímarit Máls og menningar, 1. hefti. 1988.

Jameson, Fredric. The Prison-House of Language. A Critical Account of Structural­ism and Russian Formalism. Princeton, N.J. Princeton University Press. 1972.

Kristeva, Julia. Desire in Language. A Semiotic Approach to Literature and Art. Ritstj. Leon S. Roudiez. Ensk þýð. Thomas Gora, Alice Jardine og Leon S. Roudiez.New York, University of Columbia Press. 1985.

Kristeva, Julia. La Révolution du langage poétique. París, Seuil 1974. Ensk þýð. og stytting: Margaret Waller: The Revolution in Poetic Language. New York. 1984.

Kristeva, Julia. „The Speaking Subject“. Í Marshall Blonsky (ritstj.). On Signs. A Semiotics Reader. Oxford, Basil Blackwell. 1985.

Kristeva, Julia. „Le mot, le dialogue et le novel“. 1969. Ísl. þýð. Garðar Bald­vinsson. „Orð, tvíröddun, skáldsaga“. Í Spor í bókmenntafræði 20. aldar. BHÍ. 1991.

Laqueur, Thomas. Making Sex. Body and Gender from the Greeks to Freud. Cambridge (Mass.) og London (Engl.), Harvard University Press. 1990.

Matthías Viðar Sæmundsson. „Blendin köllun postulans“. Útisetur. Sam­band geðlækninga, bókmennta og siðmenningar. BHÍ. 1998.

Nietzsche, Friedrich. Zur Genealogie der Moral. 1887. Ensk þýð. Walter Kaufmann og R. J. Hollingdale.  On the Genealogy of Morals and Ecce Homo. Walter Kaufmann (ritstj.). New York, Vintage. 1989. [Eftir útgáfu bókarinnar kom út íslensk þýðing Róberts Jack: Af sifjafræði siðferðisins: Ádeilurit. Hið íslenska bókmenntafélag, 2010.]

Saussure, Ferdinand de. Course in General Linguistics. Ensk þýð. Wade Baskin. New York, McGraw Hill. 1959.

 

 

Bókfræði um Michel Foucault

 

Rit eftir Michel Foucault:

Maladie mentale et personnalité. París, P.U.F. 1954; endurútg. og mjög endurskoðuð: Maladie mentale et psychologie. 1961. (Ensk útg. Mental Illness and Psychology. 1995.)

Folie et déraison. Histoire de la folie à l’âge classique. París, Plon, 1961. [Sturlun og óskynsemi. Saga sturlunar á skynsemisöld.] Styttri útgáfa, Histoire de la folie, 1964. (Ensk þýð. eftir styttri gerð Madness and Civiliza­tion. A history of insanity in the age of reason. Þýð. Richard Howard.) Hluti styttu útg. þýddur á íslensku 1998: Matthías Viðar Sæmundsson (ritstj.), Útisetur. Samband geðlækninga, bókmennta og siðmenn­­ingar. Þýð. Ólöf Pétursdóttir og Garðar Baldvins­son. Bókmenntafræðistofnun HÍ.

Naissance de la clinique. Une archéologie du regard médical. París. P.U.F. 1963. [Fæðing sjúkrastofunnar. Minjafræði um aungaráð læknisfræðinnar.] (Ensk þýð. The Birth of the Clinic. An Archaeology of Medical Perception. 1973)

Raymond Roussel. París, Gallimard. 1963. [Raymond Roussel.] (Ensk þýð. Death and the Labyrinth. The World of Raymond Roussel. 1987.)

Les mots et les choses. Une archéologie des sciences humaines. París, Gallimard. 1966. [Orð og hlutir. Minjafræði mannvísinda.] (Ensk þýð. The Order of Things. An Archaeology of the Human Sciences. 1973.)

La pensée du dehors. 1966. [Hugsun um það ytra.] (Ensk þýðing sem grein „Thought of the Outside“, 1998 og 2003.)

L’archéologie du savoir. París, Gallimard. 1969. [Minjafræði þekking­ar­innar.] (Ensk þýð. Archaeology of Knowledge. 1972.)

L’ordre du discours. París, Gallimard. 1971. Fyrirlestur fluttur 2. des. 1970. (Enskar þýðingar: „The Order of Discourse“ og „The Discourse on Language“.) Ísl. þýð. „Skipan orðræðunnar“, þýð. Gunnar Harðarson, í Garðar Baldvinsson, Kristín Birgisdóttir og Kristín Viðarsdóttir (ritstj.): Spor í bókmenntafræði 20. aldar. Bókmenntafræðistofnun HÍ. 1991.

Ceci n’est pas une pipe. París, Fata Morgana. 1973. [Þetta er ekki pípa.] Upphaflega sem grein í Cahiers du chemin, janúar 1968, 2. hefti. Stækkuð fyrir bókarútgáfu. (Ensk þýð. This Is Not a Pipe. 1983 og 1998)

Le pouvoir psychiatrique. Cours au Collège de France. 1973–1974. [Vald geðlæknisfræðinnar. Fyrirlestrar við Collège de France. 1973–1974.] Ritstj. François Ewald og Alessandro Fontana, ásamt Jacques Lagrange, París, Seuil/Gallimard. 2003.

Les anormaux. Cours au Collège de France. 1974–1975. [Hinir óeðlilegu. Fyrirlestrar við Collège de France. 1973–1974.] Ritstj. François Ewald og Alessandro Fontana, ásamt Valerio Marchetti og Antonella Salomoni. París, Gallimard/Le Seuil. 1999.

Surveiller et punir. Naissance de la prison. París, Gallimard. 1975. [Gæsla og refsing. Fæðing fangelsisins.] (Ensk þýð. Discipline and Punish. The Birth of the Prison. 1977)

„Il faut défendre la société“. Cours au Collège de France. 1975–1976. [Samfélagið þarf vernd. Fyrirlestrar við Collège de France. 1975–1976.] Ritstj. François Ewald og Alessandro Fontana, ásamt  Mauro Bertani og Alessandro Fontana. París, Seuil/Gallimard. 1997.

Histoire de la sexualité [Saga kynhneigðarinnar.] (Ensk þýð. The History of Sexuality.)

1. bindi: La Volonté de savoir. París, Gallimard. 1976. [Þekkingarviljinn.] (Ensk þýð. The Will to Knowledge. 1978.)

2. bindi: L’Usage des plaisirs. París, Gallimard. 1984. [Beiting nautna.] (Ensk þýð. The Use of Pleasure. 1985.)

3. bindi: Le Souci de soi. París, Gallimard. 1984. [Sjálfsumhyggja.] (Ensk þýð. The Care of the Self. 1986).

Sécurité, Territoire, Population. Cours au Collège de France. 1977–1978. [Öryggi, svæði, fólksfjöldi. Fyrirlestrar við Collège de France. 1977–1978.] Ritstj. François Ewald og Alessandro Fontana, ásamt  Michel Senellart. París, EHESS, Gallimard og Seuil. 2004.

Naissance de la biopolitique. Cours au Collège de France. 1978–1979. [Fæðing líf-pólitíkur. Fyrirlestrar við Collège de France. 1978–1979.] Ritstj. François Ewald og Alessandro Fontana, ásamt  Michel Senellart. París, EHESS, Gallimard og Seuil. 2004.

L’Herméneutique du sujet. Cours au Collège de France, 1981–1982. [Túlkunarfræði sjálfsverunnar. Fyrirlestrar við Collège de France. 1981–1982.] Ritstj. François Ewald og Alessandro Fontana, ásamt  Frédéric Gros. París, Seuil/Gallimard. 2001.

Le Désordre des familles. Lettres de cachet des archives de la Bastille au XVIIIe siècle, ásamt Arlette Farge. [Óreiða fjölskyldunnar. Bréf með innsigli skjalasafns Bastillunnar frá 18. öld.] París, Collection Archives. 1982.

Discourse and Truth. The problematization of parrhesia. [Orðræða og sann­leikur. Spurningar við orðheppni.] Evanston, Illinois. North­western University Press, 1985. Sex fyrirlestrar við Berkeley-háskóla í Kali­forníu 10. október til 30. nóvember 1983.

 

 

Efni eftir Michel Foucault sem hefur birst á íslensku:

„Skipan orðræðunnar“. Þýð. Gunnar Harðarson. L’ordre du discours. 1971. Í Spor í bókmenntafræði 20. aldar. Frá Shklovskíj til Foucault. Bók­mennta­­­­fræðistofnun HÍ. 1991.

„Hvað er upplýsing?“ Þýð. Torfi H. Tulinius. Skírnir, haust 1993. „Qu’est-ce que les Lumières?“. Fyrirlestur við Collège de France 5. jan. 1983. Birtist í Magazine Littéraire, 309. hefti, 1993. Ensk þýð. „What is Enlightenment?“. Í The Foucault Reader, ritstj. Paul Rabinow. New York, Pantheon. 1984. Sjá næstu grein.

„Hvað er upplýsing? Hvað er bylting?“ Þýð. Egill Arnarson. Í Róbert Jack og Ármann Halldórsson (ritstj.): Hvað er heimspeki, tíu greinar frá tutt­ugustu öld. Björn Þorsteinsson ritaði inngang. 2001. „Qu’est-ce que les Lumières?“. Fyrirlestur við Collège de France 5. jan. 1983. Birtist fyrst í Magazine Littéraire, maíhefti 1984, nr. 207. Báðar þessar greinar eru útdráttur úr sama fyrirlestri.

„Um önnur rými“. Þýð. Benedikt Hjartarson, Ritið. 2002. „Des espaces autres“. Fyrirlestur fyrir Cercle d’études architecturale, haldinn 14. mars 1967. Birtist í Architecture, Mouvement, Continuité. 5. hefti, 1984.

                                                                                                                  

Í þessu riti birtast eftirtaldir textar:

1966. Lagsmeyjarnar. Les suivantes. Les Mots et les choses. Gallimard. Þýðandi Sigurður Ingólfsson.

1969. Hvað er höfundur?; Qu’est-ce qu’un auteur? Bulletin de la Société française de philosophie, 63. árg., 3. hefti júlí–sept. Upphaflega fyrirlestur fluttur 22. febrúar 1969. Þýðandi Garðar Baldvinsson.

1975. Líkami hinna dæmdu. Le corps des condamnés. Surveiller et punir. Gallimard. Þýðandi Björn Þorsteinsson.

1975. Alsæishyggja. Le panoptisme. Surveiller et punir. Gallimard. Þýðandi Björn Þorsteinsson.

1976. Við hinir, viktoríumenn. Nous autres, victoriens. Histoire de la sexua­lité 1. bindi. Gallimard. Þýðandi Björn Þorsteins­son.

1976. Bælingartilgátan. L’hypothèse répressive. Histoire de la sexualité 1. bindi. Gallimard. Þýðandi Björn Þorsteinsson.

1971. Nietzsche, sifjafræði, saga. Nietzsche, généalogie, histoire. 1971. S. Bachelard et al. (ritstj.), Hommage à Jean Hyppolite. Presses universitaires de France. Þýðandi Björn Þorsteinsson.

 

Kynning á þýðendum:

 • Björn Þorsteinsson: Doktor í heimspeki frá Université Paris 8 í Frakklandi; skrifaði um réttlætishugtakið í hugsun Jacques Derrida. Stundakennari í heimspeki við Háskóla Íslands og ritstjóri Hugar – Tímarits um heimspeki og Lærdómsrita (ásamt Ólafi Páli Jónssyni).

 • Garðar Baldvinsson: Nam samanburðarbókmenntir við University of British Columbia í Vancouver í Kanada; MA-ritgerð um Juliu Kristevu. Ritstjóri Alfræði íslenskra bókmennta og bokmenntafræða. Hefur gefið út fimm ljóðabækur.

 • Sigurður Ingólfsson: Doktor í bókmenntafræði frá Montpellier í Frakklandi, skrifaði um ljóðlist Yves Bonnefoy. Kennari við Menntaskólann á Egilsstöðum, fréttamaður fyrir Stöð 2, í ritstjórn Málfríðar, tímarits félags tungumálakennara. Hefur gefið út fjórar ljóðabækur.

Aftanmálsgreinar

 1. Þessi fyrirlestur kom út á íslensku sem „Skipan orðræðunnar“ í bókinni Spor í bókmenntafræði, 1991. Hér á næstu síðu fer stutt yfirlit um rit Foucaults, en síðan er allítarlegt yfirlit aftast í þessum inngangi og því er látið hjá líða í meginmáli að gefa nákvæmar bókfræðilegar upplýsingar. Einnig er rétt að benda á stutt en traust æviágrip Foucaults eftir Garðar Á. Árnason í Hvað er heimspeki? Tíu greinar frá tuttugustu öld, Hugvísindastofnun Háskóla Íslands 2001.

 2. Sjá einnig eftirmála Matthíasar Viðars Sæmundssonar, „Blendin köllun postulans“, Útisetur, s. 268–269.

 3. Sjá einnig fróðlega umfjöllun Matthísar Viðars Sæmundssonar um hugtakið í „Blendin köllun postulans“, Útisetur, s. 306. Minnstu einingar voru gjarnan kallaðar „éme“-orðum, sbr. „séméme“ hjá Roland Barthes.

 4. Gagnrýnin kom fyrst fram í fyrirlestri Derrida við Sorbonne-háskóla 4. mars 1963 en birtist í bók hans L’écriture et la différence 1967, undir titlinum „Cogito et histoire de la folie“. Íslenska þýðingu beggja greinanna er að finna í Útisetum. Samband geðlækninga, bókmennta og siðmenning­ar, ritstj. Matthías Viðar Sæmundsson, 1998 (Ólöf Péturs­dóttir þýddi grein Derrida en undirritaður grein Foucaults). Þessi gagnrýni Derrida olli vinslitum milli þeirra tveggja og greri aldrei um heilt. Foucault er m.a. sagður hafa sakað Derrida um hryðjuverk gegn merkingunni með  því að textar hans væru svo tyrfnir og fullir af orða­leikjum  að engin leið væri að skilja hvað hann væri að fara. Sjá Jacques Derrida, Limited Inc., París, Galilée 1990, s. 257–258.

 5. René Descartes, Hugleiðingar um frumspeki. Þorsteinn Gylfason þýddi. Hið íslenzka bókmenntafélag 2001, s. 134.

 6. Á frönsku, „rapport de pouvoir“, sem einnig er þýtt sem valdaafstæður hér í bókinni.

 7. Alsæisbyggingin fékkst aldrei byggð þótt síðar hafi svipuð lögmál verið notuð við byggingar annarra fangelsa víða í heiminum. Í Gæslu og refsingu eru myndir af slíkum byggingum og nokkrar þeirra eru hér endurprentaðar með góðfúslegu leyfi Gallimard-útgáfunnar í París.

 8. Í þessu samhengi má minna á ritunarfræði Derrida í De la grammatologie (1967) þar sem hann heldur því meðal annars fram að skyldleiki sé milli þess sem nútildags heitir „forritun“, þ.e. að hanna forrit í tölvur, og lögmála „venjulegra“ skrifa; að í báðum sé fylgt regl­um sem hver og einn gengur að og grípur til (sjá Of Grammatology s. 9). Slík hugmynd er ennfremur forsenda málkenninga Jakobsons og „hendingskenningar“ Heideggers („Geworfenheit“) svo dæmi séu tekin.

 9. Ennfremur skal hér minnt á að Napóleon, upphafsmaður kerfisbund­innar skrásetningar persónuupplýsinga, ríkti í Frakklandi á þeim tíma sem Bentham var að skrifa bók sína, 1804–1821.

 10. „Jöðrun“ er hér notað skv. þýðingu Ástráðs Eysteinssonar á hugtakinu „deterritorialization“ enda felur það í sér einhvers konar „afmiðjun og jöðrun“ („Myndbrot frá barnæsku“, s. 205).

 11. Foucault: Histoire de la sexualité. 1. bindi: La Volonté de savoir, 1976, s. 201 (ensk þýð. s. 157). Sjá einnig gagnrýni Judith Butler á kynjafræði Foucaults: Gender Trouble, s. 95–102 og víðar. Í gagnrýni sinni á frelsunar­kenningu Foucaults bendir Butler á að kenn­ing hans um að kyn sé afleiðing orðræðu um kynhneigð geri ráð fyrir að kynhneigð sé marg­ræð og leiti í margar áttir (eins og ég ræði hér á eftir). Butler færir traust rök fyrir því að í þessari kenningu Foucaults felist sterk einsleitni: „Í rökfærslu sem gæti nánast verið ættuð frá Rousseau endurreisir Foucault tvennd sem samanstendur af tilbúnu menningarlögmáli sem smættar og afmyndar það sem mætti nefna náttúrulega eins­leitni […] einsleitnin sem Foucault kallar til er sjálf samansett úr þeirri læknis­fræðilegu orðræðu sem hann gerir að lög­fræðilegu bælingar­lög­máli“ (Gender Trouble, s. 101).

 12. Sjá einkum Foucault: Histoire de la sexualité. 1. bindi: La Volonté de savoir, s. 191–202 og Butler: Gender Trouble, s. 24.

 13. Sjá einnig Foucault: „Présentation“ að Herculine Barbin, dite Alexina B. 1978; ennfremur Butler: Gender Trouble, s. 96–97.

 14. Sjá Stephen Greenblatt: „Fiction and Friction“, s. 81.

 15. Thomas Laqueur: Making Sex, s. 98.

 16. Sbr. bækur hennar Revolution in Poetic Language og Desire in Language.

 17. Nietzsche taldi gerandann úrelt viðmið, að það væri einungis vani og lögmál tungunnar sem krefðust þess að á bak við hverja gjörð væri ein­hver ger­andi; sjá Zur Genealogie der Moral [Sifjafræði siðferðisins], ensk þýð. s. 45.

 18. Franski fræðimaðurinn og rithöfundurinn Hélène Cixous var með þeim fyrstu til að rýna í þessar tvenndir og tignarröð þeirra en hún taldi vestræna menningu á vissan hátt stilla tvenndunum upp sem ands­tæðum fylkingum. Sjá Cixous: „Sorties“.

 19. Sjá Kristeva: Revolution, ensk þýð. s. 59–60.

 20. Sjá Kristeva: Revolution, ensk þýð. s. 25–28.

 21. Kristeva notar orðið „sèmiotique“, sem alla jafna þýðir táknfræðilegur, fyrir þau ferli í málinu sem tengjast líkamlegum ferlum, en um hin sem tengjast menningunni og því viðurkennda notar hún orðið „sym­bolique“ sem annars merkir táknrænt. Sjá t.d. grein hennar „From One Identity to Another“ í Desire in Language, bls. 133–136 og Revolution s. 40–42. Helga Kress talar í þessu sambandi um það semíótíska og það symbólska. Sjá Helgu Kress: „Dæmd til að hrekjast“, Tímarit Máls og menningar, 1. hefti, 1988.

 22. Hér er m.a. reynt að koma á framfæri hugtökum úr orðræðu sáltáknfræði Kristevu, eins og „symbiotique“, en það hugtak bendir á líkam­lega nánd á borð við samband móður og brjóstabarns, samband sem ber í sér leifar af þeirri nánd sem naflastrengurinn veitir. Hins vegar er hugtak sem margir póst-strúktúralistar, eins og Roland Barthes, Jacques Lacan og Julia Kristeva, notuðu til að benda á vissa tegund fullnægju, jouissance, sem getur borið í sér þá fullnægju sem fullorðnir telja móta líf ungbarns á brjósti móður sinnar en einnig kynferðislega fullnægju. Um fullnægju sjá einkum Roland Barthes (1973): Le plaisir du texte, en sá texti (ánægjunnar) fjallar í megindráttum um slíka fullnægju og ýmsar myndir hennar.

 23. Þessi hersing minnir einnig á nútímamann Halldórs Laxness, sem hefur fjölmargar lífsskoðanir þótt engin sé hans eigin og hefur verið til frá aldaöðli, hinn mesti hedónisti (sjá Halldór Laxness: „Af menníngarástandi“, s. 67).

 24. Hér vísar Kristeva til kenninga fyrirbærafræðingsins Edmunds Husserl sem taldi að vitundin næði að þekkja heiminn og fyrirbæri hans án miðlunar hugtaka en þennan hluta vitundarinnar kallaði hann „yfirskilvitlegt sjálf“ sem er í reynd hreinn þegn en ekki andlegt efni eða sál. Þetta yfirskilvitlega sjálf er um margt líkt cogito hjá Descartes þótt Husserl teldi að nauðsynlegt væri að setja „sjálfið“ í sviga.

 25. Fredric Jameson: The Prison-House of Language. A Critical Account of Structuralism and Russian Formalism. 1972.

 26. Martin Heidegger: „Brief über den Humanismus“, s. 217.

Vísun:

Garðar Baldvinsson: „Alsætt líkamsvald. Um Michel Foucault.“ Formáli að Michel Foucault, Alsæi, vald og þekking. Úrval greina og bókakafla. Garðar Baldvinsson ritstj. Bókmenntafræðistofnun Háskóla Íslands. 2005. Sótt af https://gardar9.wixsite.com/mysite/mf-alsaei

 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
Garibaldi  ehf
tölvupóstur garibaldi@garibaldi.is
© Garibaldi
iceland-flag-xl.jpg