drengmóður 2008

Verð kr. 2.990.-

Panta drengmóð.

drengmóður  2007.

Útgefandi GB útgáfa.

105 bls.

Mynd framan á kápu: ljósmyndir Garibalda.

Ljóðin fjalla um bernsku og samtíð skáldsins, m.a. fjölskyldu, borg og stöðu feðra og barna sem missa tengsl við feður sína. Ofbeldi af mörgu tagi, líkamlegt og andlegt, innan fjölskyldunnar en einnig einelti gegn fjölskyldumeðlimum. Átök við trúarsetningar, biblíulegar myndir af veruleikanum og trúna sem er boðuð, m.a. með Guði sem sér inn í innstu kima hugans, eru hér meira áberandi en í fyrri bókum Garibalda. Órói borgarinnar og kyrrð sveitarinnar takast á þar sem svæðin mætast t.d. við Elliðaár og suður eftir hrauninu til Hafnarfjarðar. Kynslóðirnar þrjár koma hér einnig fyrir og mætast í drengjakolli ömmunnar á árum fyrri heimsstyrjaldarinnar og David Bowie og málmtónlist undir aldarlok.

 

 

Úr ritdómum:

 

Morgunblaðið

Ófrjálsar og frjálsar hendur

Skafti Þ. Halldórsson

„Mörg kvæðin enda ort út frá sjónarhorni svikins barns sem bjó við harðneskju og fötlun. Það eru svik í hjónabandi foreldranna og ranggerðir gagnvart barninu.“

 

„Ljóðmælandi spyr hvað gerði ófrelsi handa hans svo magnaða að hann skyldi hljóta slík örlög. Hér grípur Garðar á því kýli sem er einn svartasti blettur á sögu okkar samfélags að senda börn í vistun hjá misjöfnu fólki í ýmsum Breiðavíkum eða hjá misjafnlega hæfum einstaklingum.“

„Þetta er mestanpart Reykjavíkurskáldskapur sem er á margan hátt ljúfsár.“

Fréttablaðið

Guðfaðir kveðinn í kútinn

Sigurður Hróarsson

„Bernskuminning skáldsins. Sögur  og leifturmyndir frá liðinni tíð.  Uppvöxtur við erfiðar og óvenjulegar aðstæður; dreggjar samfélagsins, íslenskt gettó, utangarðsfólk í skjóllausu skýli, brostin  fjölskyldubönd, bókstafstrú með  refsivönd á lofti, djöfullinn, ómegð, áfengi, ástríðuglæpir, ofbeldi á heimili, ofbeldi gagnvart  börnum, óeðli, ógn, vopn á lofti,  guðfaðir fellur af stalli. Minningarnar hverfast um ömmu, afa,  mömmu, höfund, bróður hans og  feður þeirra. Í brennidepli eru  tveir atburðir; „nótt hnífsins“ /  „það ósegjanlega“ (hvörf bókarinnar) og brotthvarf bróðurins – í  margræðri merkingu.“

„Skáldið metur áhrif æskureynslunnar á ævidaginn, áhrif þagnarinnar ekki síst (sem skáldið nú rýfur) og gefur yrkisefninu víðari  skírskotun með vísunum til heilagrar ritningar – sem eru nokkuð  trúverðugar af því þær eiga sér eðlilega forsendu í minningunni (bókstafstrú fjölskyldunnar). Biblíumyndin af sambandi föður og sonar (sem er írónísk speglun); „faðir elskaði heim, gaf son sinn“ (60), amman sem alsjáandi guð í auga barns, syndafalls-samband  þeirra bræðra (Kain/Abel), sonar-fórnin, sálma- og bænastaglið í  ljóðstílnum, beinar og óbeinar tilvísanir í kristileg kærleiksblóm; allt á þetta sér rót í uppeldinu og  sprettur af því boðorði bernskudaganna að þurrka út mörkin milli veruleikans og bókarinnar helgu. Um leið færir skáldið (persónulegt) erindi sitt nær lesandanum og reynir að vekja upp samsvarandi erkitýpur í dulvitund hans.“

„Samhliða efnishvörfum bókarinnar – sem eiga sér stað í miðju ljóði á blaðsíðu 44 – verða samsvarandi stílhvörf og eru tök  skáldsins á þeim hamskiptum í senn kennimark bókarinnar og helsta kúríósa; fyrir og eftir „hið  ósegjanlega” (44-55). Fram að  hvörfunum er stíllinn einfaldur og gagnsær, frásögnin auðskilin og  barnsleg, efnið augljóst og skýrt. Frá og með hvörfunum er stíllinn hins vegar myrkur, myndmálið  flókið (jafnvel þvælið), tjáningin hávær en kæfð, tákn (hnífur, spjót, auga, hraun, o.s.frv... ) og felumyndir leysa af hólmi einfalda augljósa birtingu: Efnið þolir ekki dagsljósið, „hið ósegjanlega“ samrýmist ekki berorði skáldsins, er leyndarmál sem þó er skáldinu sáluhjálp að þegja ekki yfir; mótsögn og áskorun sem skáldið (alsjáandi samviska) mætir með háværu táknmáli sem ætlað er allt í senn að grafa undan þögninni, létta henni og úthýsa og kjafta hana í  hel – án þess að berhátta viðmiðið og eiga þá á hættu að „eftirlíkingin“ einangrist og tapi gildi sínu fyrir lesandann.“

 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 

drengmóður

 

 

tileinkað Baldvini bróður mínum

 

drengjakollur

 

á rauða veggnum í stofunni

er mynd sem mér er afar kær

 

af ömmu minni með drengjakoll

hún er svo frískleg og ung

með þessa frönsku greiðslu

og nefið eins og á frönskum kóngi

eða Goldu Meir hún amma

hafði stundum tíma til að spjalla

við mig barnungan þegar ég

hélt í hespu fyrir hana

eða hjálpaði henni að binda á öngul

og fannst ég fullorðinn og hún

sagði mér að þær systur hún og Eyja 

hefðu borið fimmtíu kílóa

kolapoka á bakinu og fengið

fimmaura um tímann

en karlarnir tíu

 

í stríðinu sem fór framhjá landinu

þegar hún var að eignast

fyrstu börnin og myndin af afa

með barðastóra Stetson hattinn

og yfirskeggið minnir mig á

að löngu síðar skildi ég

af hverju hún gerðist aðventisti

 

það var ekki bara trúin

og ekki heldur kvenfrelsi

drengjakollsins eins og í París

 

hann missti pabba sinn

fyrir fæðingu og mömmu sína

nokkrum árum síðar og svo

bara var hann allt í einu

fullorðinn og búinn að þvælast

frá Mýrum suðrí Garð og

til Reykjavíkur lúbarinn

hér og þar og orðinn

ástfanginn af þessari

fögru snót með drengjakollinn

og farinn að drekka og vissi

alltaf hvað hann gerði

svona nautsterkur sem hann var

 

amma prjónaði sokka og vettlinga

í ellinni handa barnabörnunum

í jólagjöf uns hún gat ekki meir

 

 

amma bowie metall

 

hún ber höfuðið hátt

með hægri höndina

á öxl mannsins

sem sagði við hana

fjórtán ára

nýkomna til borgarinnar

í byrjun aldarinnar

þú verður konan mín

 

efri vörin mjó og inndregin

eins og á mér

ég hef líka frá henni fellingaraugun

eins og Gúndi frændi

 

tvítug hafði hún fætt tvö börn

fæddi níu börn um ævina

drengur andvana

dóttir lést fyrir aldur fram

tæplega þrítug

 

og líkvakan

með andaktinni

dró mömmu mína næstum

til dauða

 

árið sem hún sá Sigurjón sterka

lyfta stóra eikarborðinu

með annarri hönd

á öðrum enda þess

áður en hann gekk

yfir Rauðarána og Háaleitið

niður Sogamýrina

yfir Elliðaárnar framhjá Ártúni

fyrir Grafarvoginn allt upp í Gufunes

 

hún amma átti þrjú í fertugt

þegar hún hafði fætt öll sín börn

það elsta tæplega tvítug mær

og skýlið já skýlið

ekki beint skýli

fyrir börn og mamma yngst

alin upp með rónunum

sérvitringunum og þeim sem

ekki gengu alfaraveg

fátæklingum og erfiðismönnum

 

fyrsta minning hennar um strák

með svarbrún gleraugu og mjóa rödd

sem hrópaði út á sjóinn

nei sko rauða boltann

þegar það var hún

sem hafði dottið í sjóinn

tæplega þriggja ára

í uppáhaldsbuxunum

eldrauðum með axlaböndum

og smekk

beint ofan úr glugganum sínum

uppi á lofti skýlisins

 

og afi þurfti að stilla

til friðar í matsalnum

í skýlinu

er Oddur af Skaganum

ókyrrðist í sínum hnjávöfðu skóm

og víkingaklæðum

og Jóhannes á Borginni

stjakaði við mönnum

og allt í steik

 

og bróðir hennar lá síðar

áratugum saman

lamaður af áfengiseitrun

og konan hans hjúkraði honum

fórnaði lífi sínu

fyrir ástina í lífi sínu

í aldarfjórðung

hann lá í rúmi sínu

gat ekki reist sig upp við dogg

lítillega hreyft hendurnar

en brast athygli

eftir fimm mínútur

og þurfti svefn

greipaldinið smakkaði ég þar

svo súrt svo súrt

en hann drakk sko annað

líklega tréspíra sem getur

banað manni

 

amma hrósaði mér fyrir

að heimsækja hann

mér fannst hún eins

geta hrósað mér

fyrir að draga andann

og var svo fegin að ég

skyldi fara með henni í strætó

það var mér heiður

og hún keypti af mér blöð

kristilegs stúdentafélags

sem ég notaði í annað

keypti mér fótbolta

og strengurinn brast

var hægt að tala í einlægni

þegar maður var syndugur

í augum sjálfs sín

sá ekki guð allt

og tilkynnti ömmu

sem var í sérstöku sambandi

 

stundum skildi ég ekki ömmu

hvað hún var fegin

alls konar sjálfsögðum hlutum

heitu vatni eða þvottavél

stígvélum og hlýjum peysum

voru þetta ekki mannréttindi

eins og jöfn laun fyrir sömu vinnu

kannski ekki hjá koli og salti hf

en allavega í nútímanum

kalkofninn löngu horfinn

og kalkofnsvegur búinn að glata

tengslum við fortíðina

þegar hún bjó við sjóinn

hjá bæjarins bestu

hefði Clinton þorað þangað

sjálfur Tryggvi Gunn jafn fjarri

og Skálavíkin hennar Júlíönu í Seattle

í Washington í Bandaríkjunum

allt hendingu háð

 

og amma táraðist

þegar ég laug um heimilið

sagði allt fínt

og ég gæti vel lært

eins og hún vissi betur

grunaði kannski kuta um nætur

og öskur og hvæs

eins og hún þekkti heiminn

 

ég skildi ekki ömmu

jafnvel þegar hún sagði að karlar

hefðu tvisvar sinnum hærra kaup

við kolaburð á eyrinni

eða þegar hún batt öngla

eða bað mig að heimsækja

systurdóttur sína

og sagðist svo þreytt svo þreytt

þegar hjónin töluðu saman

á hærri nótunum

inni í stofu

 

það var erfitt að neita ömmu

um nokkurn hlut

svo ég hætti að heimsækja hana

eða tala við hana

 

hún var ekki fulltrúi guðs

hann var fulltrúi hennar

og alsjáandi auga hans

sagði hennar allt af létta

hverja stund

 

þegar deilur spruttu

um framtíð bróður míns

sem var sendur í fóstur átta ára gamall

fyrir óknytti og stelsýki

og hann þá átján ára

og mæðurnar deildu

eins og fyrir botni miðjarðarhafs

þá var vitnað í ömmu

eins og hún væri guð

eitt var að venjuleg manneskja brygðist

en að amma brygðist

var sem sjálft syndaflóðið

steinn stóð ekki yfir steini

grundvöllur lífsins

ekki neinn

 

jólin sem amma sendi ekki gjöf

brugðust jólin

pabbi og mamma með hnífinn

hurfu í skuggann

 

ég var tólf ára og andlitið hljóp upp

með ofnæmisskellum og kláða

af því ég sagði henni ekki satt

seldi ættinni blöð

og keypti fótbolta

alltaf sami svindlarinn

guð minn amma

Alla gef mér rúgbrauð

sagði ég við ömmu vinar míns

á Skúlagötunni

af því hann sagði það alltaf

en henni var ekki skemmt

 

og Hörður Torfa var dæmdur

til dauða

af dómstóli alþýðunnar

og mér fannst flott er hann

sagðist hommi

 

ég meina hvað er það

mér fannst hann gunga að flýja

til Köben

þótt einhver hótaði honum

ekki flúði afi minn

þótt einhver hótaði honum

nei hann slóst

með berum hnefum

eins og listmálari

abstraktbálari

 

flótti og flótti

ekki alltaf á hreinu

 

við börðum líka Arabann

sem játaði sinn íslamska sið

á torginu fyrir allra augum

var hann hæddur og laminn

árið sem við höfðum betur

gegn Austur-Þjóðverjum

sem eru ekki lengur til

 

og Berlín óskipt

skiptist nú skýrt í austur og vestur

jafnvel skýrar en fyrir fallið

og djöfladýrkendur ógna

saklausum metalhausum

á hátíðum rokksins

 

við erum einskis manns börn

þegar allt kemur til alls

gleymdu orðum mínum og öllu

sem ég hef látið mér um munn fara

 

nei amma mín hefði ekki skilið bowie

og hans dauðatónlist

og sonur minn elskar metalmúsík

og skilur hvorki bowie né mig né ömmu

 

 

afi kallar á kútinn sinn

 

í minni mínu

er veggurinn mosagrænn

fölglóandi mosagrænn

eins og myndum hættir til

að mildast og mótast

í áranna rás

þegar upptökin

eru í frumbernsku

 

veggurinn eins og

séður úr fjarska

yfir mosaþembur hraunsins

gegnum djúpan brunn

 

afi kallar á mig á þriðja ári

síðasta sumarið sitt

áður en hann varð allur

eins og hann vissi hvað

lægi framundan

 

gamall og obbolítið hokinn

þótt mamma hafi alltaf sagt

hann óvenju fattan

sat hann í rúminu sínu

í hvítum spítalajakka

bauð mér ópal og malt

á borðinu hjá biblíunni

og mannakornunum hennar ömmu

 

nú er ég klæddur og kominn á ról

kristur jesú veri mitt skjól

sagði hann hægt með glettni

 

maltflaskan fór ofan í kok

í eina skiptið á ævinni

undrunarefni lengi fram eftir

röddin bland af sterku og veiku

þessi unaðslega afarödd

með seiðandi kraft innan úr brjósti

bað mig ávallt muna

hvað amma væri góð kona

traust og blíð og sterk

 

ritningargreinar frá ömmu

bænir frá ömmu

bón hans beint úr hennar munni

að sitja aldrei með hendur í skauti

heldur hafa alltaf eitthvað að iðja

þó ekki væri annað en lesa blað

 

iðnin veitir yndi mest

inn að hjartarótum

ber þig ætíð að sem best

beint frá huga stórum

 

nokkuð viss um að glugginn

var beint á móti veggnum fölgræna

dulúðug birta sem hjúpur um afa

og hægra eyrað sást ekki

bjöguð hægri kinnin

og munnvikið

virtust alheil eins og hin hliðin

runnin samt saman við ljósið

sem flóði inn í jakkaklæddan búkinn

veggurinn uppljómaður

enn sást ekki gangan í matgarðinn

árið eftir

 

höndin einhvern veginn

laus frá bolnum

án þess að kljúfa loftið

eins og mamma sagði löngu seinna

 

ég veit ekki hvar ég væri

án hennar ömmu þinnar

hún var alltaf mín stoð og stytta

ég alltaf heill en veikur

og vinnandi langa daga

 

víst ertu jesú kóngur klár

sagði hann með veikri hægð

þagnaði

horfði í gaupnir sér

starandi eins og horfinn

á vit annars tíma eða eitthvað

og lognaðist út af í rúminu

 

já ég hefði getað verið betri

við hana blessaða

 

andlátsorð hans

í eyra mitt námfúst

of ungt fyrir söknuð

 

 

hjólið

 

hjólið frábæra

hófst kolsvart

upp úr skottinu

í þann mund

sem sólin reis

upp við Vífilfell

og sáldraði roðagulli

yfir hinn nýja dag

 

sumum fannst mikið

leggjast fyrir okkur

í skortsins koti

eins og hjól bæri sótt

úr blásvörtu skottinu

einhverja Biafraveiki

enda var ég ekki

jú einmitt þaninn magi

eins og börnin blökku

suður í álfu myrkursins

 

ekki hjól tímans

hannað fyrir stelpur

og við sjö bræður

á eftir stóru systur

tignarröðin eftir aldri

stolt mitt samt

meðan röðin leyfði

og ugglaust lengur

 

entist okkur öllum

margmáluð funestusfluga

handa fúnikalsbörnum

sem við vorum kölluð

eftir dagsbrúnina gullnu

vorið sextíu og eitt

 

áður en súpan millilenti

á græna hattinum

 

hjólið bar mig brátt

út í óbyggðir hjá heimsenda

og sveitina þar suður af

þetta víðerna land

 

vinirnir stríddu mér

á að vera alltaf einn

pabbi skammaði mig

fyrir að vera fjarri byggð

og taka hjólið traustataki

svona lengi

 

 

sagnaseiður

 

eldhúskrókurinn

ekki sjálft hornið kannski

altarið og sagnaseiðurinn

töfrandi röddin hennar

eins og innan úr iðrum

heimsins

 

hér streymdu fram sögur

frá tímum sem lauk

löngu áður en ég fæddist

og gengu svo skringilega

í endurnýjun lífdaga

innan í mér

 

þegar hún var lítil

endalaus sól

og allir góðir

innan í þessari hrjúfu

rödd seiðsins

sem stafaði geislum

guðs og ömmu

yfir allt frá króknum

 

jafnvel slagurinn við gúttó

varð kærleiksríkur

og blandaðist einhvern veginn

saman við Gvend jaka

sextán ára að predika

yfir verkamönnunum

í skýlinu hennar

 

sérvitringar rónar

dúllarar geðveikir

vistkonur púrtkonur

þvottakonur

sérhver átti sögu

og fagra dýrðarstund

þótt engin væri

bíblíumyndin

til staðfestingar

aðeins þessi orð

borin uppi

af röddinni dimmu

sem gat meitt

og seitt

 

 

funestusbörn

 

mamma kunni allt

um það að verða fyrir einelti

gleraugun þykku

og skortur á skírn

og fermingu

og þegar hún var

neydd í sund

og ýtt frá bakkanum

með bambusstönginni

sem fékk margar konur

til að fara ekki

í baðkar áratugum saman

 

og aðventistar urðu fyrir aðkasti

eins og herfólkið

sem aðventistar gerðu grín að

eins og hvítasunnumenn

allir meira og minna

á flótta undan bakkusi

og messías rétt

handan við hornið

 

funestusbörn vorum við kölluð

löngu seinna

og ég skildi ekki orðið

eða árásina

klumbufótur þaninn magi

kálfinn rýri og ótti við höfuðstökk

 

bein stríðni betri en hulin

kjaftfor sem ég var

og segði hálfa ættina

hálfvita og vitleysinga

á þriðja ári

nýbyrjaður að tala

og nú man enginn annað

 

ekki hvernig ég tók upp kartöflur

eða kál eða gekk marga kílómetra

á þriðja ári

upp götuna frá höfðaborg

að kringlu

heil eilífð

og náði ekki heilaritun

fyrr en borgin náði lengra

út fyrir mæri skilningsins

 

 

blátt hús við höfnina

 

höfnin var umgjörð

um eitthvað um lífið

þegar ég var strákur

og seldi köllum í bátum

og verbúðum Vísi

með nýjustu fréttir

af skreiðarsvindli

og leigubílstjóramorði

sem skók þjóðina

og svaninn sem pabbi

sigldi á um höfin blá

í miklu meira en sautján ár

 

og þeir sögðu hinir að hann

hann pabbi minn heillaði

þær allar svona tannlaus

það fannst mér þó skrítið

 

og ljósmyndin af bátnum

í hliði hafnarinnar

var gerólík þeirri sem

við pabbi teiknuðum

eftir hans minni

löngu áður en brestandi

bóman á Reykjaborginni

hífði honum

hans mikla heilsubrest

 

sem myndgerðist fyrir augum mér

þegar heiðbláa húsið er brotið

í mauk og ekki stendur

eftir steinn

 

 

pervisinn pabbi

 

pabbi minn var sjómaður

sem veiddi stundum

risastóran þorsk eins og

þegar ég vann með honum

til að fá fermingarpeninga

 

og ég geymdi alla þá stærstu

þar til síðast eins og skinnið

á sunnudagssteikinni

en þeir voru stærri en nokkurt læri

stærri en ég og sá stærsti

stærri en pabbi

sem var lágvaxinn

og eftir að hann veiktist

var hann pervisinn eins og

anórexíustelpa með stóran skalla

nautsterkur og sauðþrár

 

feyktist eins og lauf í vindi

kommúnismans sagði hann

 

og ég trúði öllum stóru orðunum

um helvítis íhaldið og fasistadjöflana

sem vildu aðeins arðræna

jörðina og loftið og mennina

og börnin þeirra og konurnar

þessir andskotar

lýður og skríll

sem vill koma heilbrigðri hugsun

undir græna torfu

út í hafsauga eða lengra

nota hold hennar í beitu

á Dornbanka

eins og íslensku börnin í Dýrafirði

sem voru seld til Frakka

og Englendinga á öldum áður

 

þar stærstu þorskar

í heimshöfunum

 

en í stríði gegn valdhöfum

gafst pabbi upp strax og þeir

önduðu í áttina að honum

þessir andskotar

 

 

örfiri

 

Örfirisey

fannst mér alltaf skrítið orð

enda oftast sagt Öffirsey

og þegar ég hafði farið þangað

daglega í mörg ár og séð tankana

og frystihúsin og verbúðirnar

á Grandanum sagðist Sobbeggi afi

baða sig þarna og ég sá

fyrir mér krökkar leirhvítar

Majorkastrendur

 

en maðurinn var allsgáður

og mikilsvirtur og hlaut að vita

hvað hann söng þótt ég hefði

líka lesið að hann hélt sig

vera ófrískan að barni

eins og mamma

 

og pabbi hló

að þessum klikkaða kjána

sem þóttist snillingur

kannski frá því hann fæddi

sjálfan sig undir jökli

í öræfum sem útlendingar

kölluðu eyðimörk og Sobbeggi

sá ekkert líkt við Sahöru

og baðaði sig hjá slorinu

í Effirsey sem hvarf áður fyrr

á flóði og á þátt í nafni Reykjavíkur

samkvæmt nýjustu nýaldarkenningu

Moggans sem pabbi hataði

en keypti alltaf þegar hann

átti peninga en Þjóðviljann

þótt hann ætti ekki fyrir mat

 

og fannst fáránlegt og næstum

svik við karlmennsku sína

að hnykla vöðvana sem eru

þeir flottustu sem  ég hef séð

 

í þessum grjóthörðu kúlum

með útstæðum æðum

var eitthvert líf og frjómagn

sem ekki sést í fitness

 

og Grandinn var orðinn

saklaus þegar ég labbaði

þangað með nesti handa pabba

á meðan Sobbeggi gekk í hvarf

að hreyfa sig eftir kerfi Muellers

allsnakinn þar sem enginn sá

 

nema sjómenn á leið í land

eða frá landi á haf út

og sáu líklega ekki það sem

þeir hugsuðu í þessu karlmannslíki

sem gat töfrað barn í magann á sér

 

og setti líf sitt í reglulegt klukkuverk

sem minnti á Sjaplín

og Ljósvíkinginn í einni persónu

sem stjáklaði kramin af

berklum og fótasnúningi

 

 

úr myrku pergamenti

 

líður hugljúf nótt

um víðar bjartar lendur

heimilið nýja

í garði ása

nærri bústöðum

 

brunasárið á þriðja ári

á hægri fæti

þegar ketillinn valt

og helltist allur

á fótinn svo mamma

klippti óðslega

upp alla skálmina

sagði hún síðar

og í hendingskasti

undir læknishendur

allt gleymt

 

hundurinn stóri svarti

sem ég hefði þurft

að teygja mig

upp til að klappa á trýnið

náði pabba í klof

djöfullinn sjálfur

urrandi eins og hafrót

margra sjóa

upp við hugarströnd

óskýr orðinn

 

sautjándinn árið áður

mannhafið og ísinn

í tjaldinu sem hvarf

en lifir lengi í minni

systur minnar

með pabba

og mömmu heima

 

og amma gaukar að henni

tíeyring fyrir hjálpina

en hún afþakkar

það fæst ekkert

fyrir svona smáræði

amma mín

 

engin búð í nýja hverfinu

þurfum í Lídó

að sækja mjólk

göngum saman

fjögra og sex ára

þessa stundargöngu

kaupum apótekaralakkrís

að gleðja geð

guma og svanna

í húsi fjölmiðlanna

hálfri öld seinna

 

fúlir drullupyttir

hjá öllum húsum

grunnar fullir af botnlausum

aur og óhugnaði

 

fóturinn datt

svo ég datt

oní kjallara

og átti fótum fjör

að launa

í spelkuskónum

 

laugardagsferðir

í kirkju óhafnar

þótt aðrir stundi þær

innri friður fullur

af botnlausum myndum

og orðaskaki

í plati

 

upp af ströndu

rísa tveir hamir

sem ljósspjótin öll

standa á augnablik

baða draumkenndum ljóma

rista þau út úr

myrku pergamenti

leikrit án kynningar

 

andartak tekur fyrir andardrátt

allt stendur á öndinni

 

hann með odd við kverk

hún með blað við hönd

 

samsíða höfuð

í annarlegum stöðum

eins og skekkt

í myndvinnslu

hljóðrás enn óundin

rammar allir eins

og önd í hálsi

 

eins og sjaplínsk sýn

án Sjaplíns og strokudrengsins

ekkert hreyfist

nema blikna spjót

og bogna og berast

að banabaugum

enginn rauðhaus

að ganga úr mynd

 

í Guerníku var heilt þorp

þurrkað af yfirborði jarðar

í Aussvits var heill kynþáttur

þurrkaður út

í Ásgarði heill frændgarður

í afmynd þurrkaður út

af yfirborði pergaments

 

vogaðu ekki

nálægt mér

nýbúinn

að káfa

á brjóstum hennar

djöfull

 

orðin greypt sem forskrift

á berki heilans

myndin máð út

af tjöldum hugans

hvæs sem eggjar

framhald og uppbót

 

blað skilur huga

sem unnast

líkamar vindast

um rúm

hjöltu um egg

 

drengmóður

líður um rúm

 

 

grandalaus fegurð

 

stinga sjónhimnur spjót

má burt útskorið myrkur

hylja atvik hörðu ljósi

læst í kistu á botni

 

um nætur fúlir pyttir

ólga upp dólgslegum

djöfulsputtum

gegnum vegarslóða

vilja læsa greip

um drengmóðar tær

 

var hann of grandalaus

til að skynja fegurð heimsins

í bliki þess gula ljóss

 

hvaðan kemur paradís

í hug hans ævi síðar

minning að hjúfra að

höfði að halla að

 

missir án glötunar

hins minnsta af þessum

spjótalögðu bræðrum

minnisins

 

myndlaus er hann

steinninn ævarandi

í maganum

málaður af honum

og einhverju

til hálfs

 

gulleit er ástin forboðin

blá í meinum

spjótalög í rúmi

 

föðurins afskakka höfuð

myndbrýtur tímann

ofvaxið barnshuga

skinhelgi og forn mjöður

afbrýðisemi litar grænan grunn

sem angurvær grasnál

enginn saumaskapur

 

er ekki grænt slakandi

sláandi líkt paradís

og parísarleikjum bernskunnar

 

huggunin eina að hlaupa

í rúmið þeirra

passa að þau hlaupi

ekki á sig

 

gegn harmi huggun

að hlaupa að barmi

sjálfs þess harms

sem hugga þarf gegn

 

myndin hverfist um sig sjálfa

líkama og sálar aðgreining

djöfull sökudólgur

sem í næturmyrkri læðist

og fimar loppur teygir

undir sæng hans

höfuð berst við vöku

fætur við dólgslega fingur

 

þegar svefninn sækir á

herðast fingur um tær

baráttugleði fram að

stórmeistarajafntefli

á endanum margskorið

af spjótalögum

sem kasta honum

á fætur

að hlaupa gegn harmi

eða kannski huggun

 

 

það ósegjanlega

 

það ósegjanlega

þegar glampar á blaðsins egg

og ljósnálar skjóta öngum

inn í myrkrið

 

þegar djöfullinn bíður

í myrkrinu

til að taka mann

 

það ósegjanlega

þegar myrkrið sigrar

og þú ert ekki

til að leiða vininn þinn

á vegum dimmunnar inni

 

þegar maður grefur

sjálfan sig undir myrkrinu

lokar á ljósið

á skerandi glampann

 

það ósegjanlega

er ósegjanlegt

og það má ekki segja neitt

augun opin sjá ekki

augun lokuð sjá ekki

myndin föst sem regnbogi

ekkert við endann

engin sáttargjörð

 

máttarstólparnir brostnir

rísa heilir

upp úr sverði myrkursins

berast á banaspjóti

 

þegar ástin sveigist

af leið inn í aðra vídd

ljós hennar rýtingur

í auga

utan úr gangi tímans

 

þráin óseðjanlega

fálmar um sverðsins egg

finnur oddinn í uppsprettu sinni

sjálfri miðju lífsins

 

það ósegjanlega

verður ekki sagt

berum orðum

maðurinn sem féll úr tvíburaturninum

finnst ekki framar eins og hengdur

upp á þráð

þar sem upp er niður og niður upp

afslappaður eitt andartak

sem nægir myndavélinni

 

að þrá hönd að leiða sig

þær eru að berjast

beggja vegna eggjar

og víðs fjarri var þín

 

söngurinn á kvöldin

um Dísu dalaskáld

sem kvað ljóðin sín öll

í hjartastað mannanna

henni fór ekki síður fátæktin

og vistaskiptin mörgu

hjá vondu fólki og góðu

sem allt bar eigin hag fyrir brjósti

en ekki hennar

þótt hún segði sér það sjálf

 

það ósegjanlega

útbreiddur faðmur

hlýr söngur í hálsakoti

sögur af nákomnu fólki

allsendis ókunnugu

sem venslast manni

 

allt sjáandi auga

guðs og hans engla

sem sitja fyrir manni

með refsivöndinn á lofti

hrísið hríslast um hrygginn

niður af upprisnum hárum

í hnakkagrófinni

 

að skoppa til hinna

sem ekkert eiga

nema borðið galtómt

sendur með fisk

og brauð handa öllum

ekki fimm þúsundum

bara tíu manns

og súrmjólk hjá okkur

skrifuð í búðinni

enginn púðursykur

 

það ósegjanlega

að kyssa á báttið

þegar vegurinn endar

og andlitið skransar í kantinum

meðvitund hverfur

og maður er

borinn á borð

inni í eldhúsi

og konurnar í hverfinu

góna allar er maður rankar

vankaður og lokar augunum

 

það ósegjanlega

að stoppa í sokka

sauma slátur

og fyrir munn manns

með einni nál

sem skreppur í lærið

er maður hrekkur við stungu

og dropinn ævarandi

órætt tákn

vafið ævarandi

þögn

 

 

frjálsar hendur

 

það sem má ekki segja

er svo ósköp margt

sumt eins og silfurhvít

glampandi lína skýjajaðars

lýst upp í sól að setjast

rétt undir sumarsólstöður

og allt kvikt leikur sér

 

sumt eins og handaband

sem tognar í það óendanlega

band móður og sonar

sem er sendur til vandalausra

 

hann sér móður sína hverfa

társtokkna burt frá bílnum

djúpt inn í borgina

sem hann sjálfur þeytist úr

á ógnarhraða norðurleiðar

 

óljós orð um skróp

og gripdeildir og ómegð

 

á áttunda ári í heimi

þar sem allir tóku eitthvað

ófrjálsri hendi

hvað gerði ófrelsi handa hans

svo magnað

að hann var sendur

fangaflutningum

í galdragúlaginu á Ströndum

 

þar höfðu bændur

frjálsar hendur

baráttuglaðar hendur

og litli kroppurinn sjö ára

 

sálin límd við mömmu

að bjóða honum

að bjóða hinn vangann

og faðirinn víðsfjarri

býður upp á lausn

að loknu þessu lífi

enginn faðir í þessu lífi

svikari út við hafsauga

þráin þangað jafn sterk

sviðanum undan síðasta skell

í gúlaginu

 

 

góðvild annarra

 

heiður morgunn

heimalningurinn á hlaði

sogar pelann

í hendi honum

í þorskafirðinum

tröðin niður á veg

álíka löng og á fjallið

 

í hlíðinni handan fjarðar

bjó sálmaskáldið kröftuga

 

sjálfur

hefur maður

mestan áhuga

á sínu eigin lífi

skapa það

segja það

 

innanbæjar velta upp orð

sem úr hellismunnum

fá og fækkar í fóstrinu

 

orð smituð sárum

söknuði eftir mömmu

hugleikjum með pabba

sem hann á enn óséðan

þögn og orðspor

eins og af heiðinni

 

sem hann fer fyrst

undir fermingu

sólbjartan dag um vor

er hann sér mömmu

fyrsta sinn

eftir það ósegjanlega

 

staðfestir

kristilegan kærleik

í gufudal

 

bróðir og systir í öðrum leik

uppi á fjalli

treysta líka

á góðvild annarra

það ósegjanlega

enn annað

 

 

kínverskar myndir

 

faðir elskaði heim

gaf son sinn

á kross húðstrýktan

hæddan fanga

 

þú ert ekki pabbi

ekki hér ekki minn

 

hvað ertu spyr hann

af hverju fórstu

skildir mig eftir

á þessum látlausa krossi

fósturtímans

 

hver sem þú ert

amöbugangur minn

um rás sögunnar

án markmiðs

hrópandi lífsandi

 

grasblöðin vaxa í auga

bjóða sjálfsást

kraft til framhaldslífs

 

fjörðurinn framan af þorsklaus

mjólkaðar skepnur í hófi

fallþungi vænna dilka

hlýindi innanstokks

allt svo hreint svo hreint

 

fuglarnir kvaka

tveir í hreiðrum

þrír í sárum

komast hvergi

 

hvar ertu faðir

með kínverskar myndir

og ekkert til viðveru

jafnvel öskur

væri vel þegið

 

ekkert

í líkingu

við hönd

á kinn

varir

 

 

sjóndeildin sveigða

 

hrópandi

á fjarran föður

finnst hann horfa á

ótímabæra fæðingu hans

hvernig hann skýst

framan í heiminn

út úr sigurkuflinum

aftur og enn á ný

sífellt að verða til

formlaus óskapnaður

innan úr dalnum

milli hárra fjalla

á mörkum dals og hlíðar

 

horfandi

á fæðingarhríðir

og óformaða mynd

þessa óorðna föður

harður nagli

hlykkjast

 

til móts við

sveigða sjóndeild

fagnandi heims

smýgur skurn

aðfarir sjást ekki

líkt og hrært

í hjarta

undir handleiðslu

þorpsfíflsins

 

bragðandi

lostuga ávexti

sætleika safa

hrynjandi tóna

sem óma við tönn

hærra mín ein

til þín

 

 

get ekki boðið þér

 

það var hugur í mínum

þegar leið að staðfestingu

hins mikla heits

sem einhver gaf fyrir hann

ekki faðir hans

í blóðinu

 

og tvær mömmur

og einn pabbi

en tveir fjarri

 

myndin af pabba

greypt í minni

þér ekki boðið pabbi

letrað stíft neðst

til hægri

 

blóðrák í minni

skiptir heimi

lífi í tvennt

kannski mamma

og pabbi

 

hugræn tár

margfallin

eins og gengi

krónunnar

í heimsrænunni

og pabbanna

á myndræmunni

 

orðin ósögð

föst í koki

eins og öndin

blaktandi kökkur

 

myndin að verða

kínversk

í föðurlegri

óreiðunni

 

 

fjörefni

 

rauð epli í körfu

vísa á fjörefni úr sögum

um sjómenn í áralöngum túrum

eins og pabba

kannski með skyrbjúg

eða beriberi

 

tannburstar svarta mannsins

sagði kennarinn hreykinn

af þekkingu og samanburði

við Evu

 

eitt má örugglega

líðoní vasa

 

stöðvið þjófinn

kallar kaupmaður

drengur í dyrum handtekinn

skyrta rifin og tölur af

 

amma trúir þessu aldrei

bíðandi heima

eftir kökum og kaffi

þótt það sé í versta flokki

í útlöndum

exportið breytir öllu

 

hras í möl

berleggja hrufl

þekkjast

af ávöxtum

 

kaupmaður gaf sig

sneri sér að öðrum

kaupendum án hupls

 

amma bíður

með mömmu og öðrum

að heiman þögn

yfir ávexti

 

epli með húslykli skorið

að búðarbaki etið

 

hann réðst á mig

ætlaði að drepa mig

reif skyrtuna mína

það fossblæðir úr fætinum

alger fantur

vildi að hann væri dauður

hengdur í hæsta gálga

 

þó hann hafi heimsótt mömmu

í harðlæsta stofuna

þar sem barnaverndarnefnd

skoðaði okkur síðar

í krók og kring

í fínasta pússi

og ekkert betl um stund

 

fyrr en lík hans

fannst hangandi á líkneski

skáldsins stóra með hörpuna

sem vogaði að hranna upp

sæstrendum myndum

og máltorfum

þar sem blikar á tíger og neró

og dettifoss

og búðin lokuð í viku

 

bölvaður hrappurinn

sáði efasemdum í hug ömmu

og mömmu og hinna

og minn

 

hvernig gat ég treyst þeim

með epli í maga

og bros á vör

 

dreymandi um paradís

á Jaðri eða Breiðuvík

umhyggju og hlýju og traust

jafnvel ógnarfrið

 

þar sem synir kaupmannsins

eru nú niður komnir

lucky bastards

 

 

hnupl

 

hvað fékk þau

til að senda þig burt

í þessa himnasælu

úti á landi

með hestum og hundum og kindum

og litlu fjalli út af fyrir þig

rétt hjá bæ þjóðskáldsins

 

hnupl sagði hún

óknyttir í skólanum

mætti illa í skólann

fór niður á höfn en ekki í skólann

 

sagði hún þegar ég kom heim

frá leitinni að bróður mínum

níu ára einn um kvöld að leita

á höfninni við tjörnina í bænum

gekk bæinn á enda með kökk

án farsíma eða strætómiða

svindlaði mér inn og þóttist

hafa borgað þegar bílstjórinn

kom aftur í að spyrja mig

 

bókin og blýanturinn

úr búðinni

enn innan undir skyrtunni

og hnuplmalt í maga

því ekki gat ég soltið

í bænum að gæta

bróður míns

 

og spurningin um að betla

að gefa eða stela

stinga og ógna

jafn óskýr

og hálfmáluð mynd

 

 

randalína

 

hansagardínur kennslustofunnar

búa til randalínu

úr esjunni

á meðan kennarinn les ævisögu

lincolns eftir smith

 

og hann borðar brauðið að heiman

og eplið úr búðinni

sem kaupmaðurinn

sá og sá ekki

þegar það rann oní vasann

 

ekki á geitarskinnsbuxum

sem hlupu næstum upp að hnjám

heldur nútímalegum bláum

hagkaupsgallabuxum

sem lita lærin svarblá

og löngu síðar vaknar

spurning um nærbuxur

sem ekki tóku lit

 

og hægláti kanadamaðurinn

hetja á borð við forsetann

væntanlega sem lærði

að lesa á eigin spýtur

 

minnir líka á Stephan Gé

og félaga hans Káinn

vestan hafs við heimkynni hinna

gróna saman við íslenskan mosa

eins og Hjálmar og Steingrímur

 

en hafði áhrif á stríðið

segja Mogginn

og Þjóðviljinn

svo gott að þeir

séu sammála

 

skíðaferð að Skógafossi

í vorleysingum

kveikir ógnareld

úr kyni og þrá

falinn undir mynd

sem enginn málar

til hálfs með engum

 

meðan hann bíður eftir

hárum á handlegg

óskiljandi

að æðsta tákn

íslenskrar menningar

í öðrum heimi

er randalína

 

 
 
 
víðerna land

 

stokkur yfir ána

brú milli borgar

og sveitar

undir ártúninu

 

og indjánagil

í fjarska

handan við byggðina

hylurinn í hvarfi

af brúnni

bak við njóla og kjarr

og kletta og sóleyjar

 

stilla

holið sem gleypti steina

sem hurfu með það sama

niður til heljar

eins og í biblíusögunum

þar sem sáðkorn Jesúsar

féll alltaf í grýttan jarðveg

og allir ávöxtuðu sitt pund

 

við sátum saman á brúnni

dinglandi fótum

yfir ólgandi straumnum

langt fyrir neðan

hvítur var hann stálgrár

og bland af grænu og brúnu

sem ekkert orð nær yfir

á sóleyjartungu

 

og litlu börnin hoppandi

að baki okkar á stokknum

kannski hrædd eða glöð

þennan vordag

þennan fyrsta vordag

sem þeim var hleypt að ánni

þau kunnu ekki

að vera kálfar

 

og við vorum smeykir

því að í fyrra

um þetta leyti sagði mamma

drukknaði strákur í straumnum

og hótaði að drekkja sér þar líka

ef ég væri óþægur

 

við gengum að hinum bakkanum

að hinni kvíslinni

drukkum í okkur kjark

úr mjólkurflöskunni

til að leggja í beljandi strauminn

undir fótum okkar

 

stokkurinn ristir landið

fyrir ofan og neðan

eins og sár í sálinni

 

þegar hið ósegjanlega hefur gerst

sem enginn má vita

ekki einu sinni ég sjálfur

 

hvernig ávaxtast það

þegar það fær jafnvel ekki

að falla í grýtta jörð

innilukt dýpst í hylnum

spegilsléttum hylnum

 

þar sem mótar fyrir

stórgrýti við barma

 

borgarmegin sjást bæirnir í mýrinni

við vitum að þar vex kál og gulrætur

því þessu stelum við þegar

við getum og enginn sér til

 

hinumegin við ána

er víðernið sveitin landið

fyrir utan borgina

 

á milli er sjórinn öðrumegin

sem pabbar sækja

langa daga

 

og á hina heldur sveitin áfram

að enda vatns og heims

þar sem radíóbylgum

er varpað yfir byggðina

samband fæst við umheim

handan hvarfs

og til að svara hringingu

skal ganga að talsímatólinu

og tala skýrum rómi

 

helmingi eldri gekk hann

þaðan yfir holtið og melana

og hraunið allt til Hafnarfjarðar

og hraunið fullt af gjótum

sem djöfullinn bjó í

og beið færis að grípa í

misstigna fætur

pompandi iljar oní göt heimsins

svo að veraldir staðnæmast

og félagarnir gera endalaust grín

að óttanum ósegjanlega

sem þeir skynja svo ósköp vel

 

egghvasst augnaráð þeirra

rifjar upp nótt hnífsins

þegar barnsaugu ljúkast upp

í glýju myrkurgeisla

í takt við eldskörp ljósspjót

 

síðar berast boð um

fjölmörg lík í gjótum

um allt þetta hraun

sem Kain hafði lengi farið um

 

hlæi þeir bara

hann vissi vel

að sá rauði teygði sig

eins og slönguvaður upp

gegnum skil góðs og ills

upp úr jörðunni grýttu

upp í ljósið að grípa tá

eða fót í gatinu

 

já hlæi þeir

hann vissi

að hún elskaði hann ekki

að það var annar í spilinu

og hann vissi að hann sjálfur

elskaði aðra þótt ungur væri

 

spjót hennar særðu hann

ærðu hann mærðu hann ekki

færðu honum ekki trú né frið

 

þoldi ekki tilhugsunina

að verða banamaður hans

þótt gjóturnar dygðu

föðurmorðingjum líka

 

óvitandi að erlendir ferðamenn

á öldum áður óttuðust

nibburnar og gjóturnar

að hestarnir sykkju þarna niður

eða sjálfir misstu þeir fætur

og hendur og líf

í þessu landi skógleysis

 

menn sem óttuðust skóga

næstum jafn mikið og krár

það óþekkta það myrka

sem lónir fyrir utan augsýn

þess kortlagða handan heimsins

 

eins og Kólumbusar hásetar

sem sigldu út fyrir heiminn

og óttuðust mest að falla

fram af brúninni oní myrkrið

blindaðir af trúnni

og jörðinni flötu

 

hvar var þá móðirin

mærin sem alla bað

að koma til sín sem þyrstir eru

 

ég meina hvern þyrstir ekki

handan heims

í miðju hrauni

milli byggðar laga

 

móti ljósbláum himinbreiðum

rís drangur og hokinn maður

við hlið hans og hrúga

minna á sonarfórn til forna

 

úti í hrauninu hlógu þeir

að órum mínum

sagnaviðjum

 

einsetti mér enn

og aftur að vinna

illt með góðu eins og

amma kenndi mér

 

vitandi að það er

óðs manns æði

að vera góður með grimmd

 

en þessi fögru sáðkorn

festust ekki í svörtu hrauninu

með glóandi mosanum

 

og stór gjóta eins og gígur

með turni fyrir endanum

og steinkross efst

eins og útskorinn

af smiðnum góða

 

sem alltaf bauð

andskotans hinn vangann

eins og óður ég meina á maður

að láta berja sig í sviðasultu

leyfa þessum djöflamergum

endalaust að hlæja

gera grín að staminu

að klumbufætinum

að freknunum

 

hvað fær jafnvel bestu vini manns

og bróður til að gera lítið úr manni

 

taka nestispokann

og henda á milli sín

þangað til maður gefst upp

í miðju sindrandi hrauni

 

þarsem vaðurinn úr neðra

slöngvast í hverju fótmáli

ofan í gjótunni myrku

ofan í mosanum logandi

sem allt getur falið

 

og gleypt sáðkornið

svo það hverfur

eins og gullbaugurinn

sem draugurinn álfurinn

stal um hábjartan dag

í feluleik barnaskarans

 

og barnavinurinn besti

réttir fram kinn

enginn hestur það sinn

nestið undir krossinn

 

þetta er bein hvítt bein

langt eins og handleggur

kannski af Njáli handsterka

nei var hann ekki að lenda

á öðrum hnetti

 

þögn fellur á þríeykið

nesti stríðni háð

veg allrar veraldar

 

hér kann að vera reimt

í þessum geim undir berum himni

yfir kirkjunni

 

soga okkur sögur

sveipast sem net

vefur sem gefur

frelsistál

og grefur mál

í stokkum

sem torvelt er að skilja

 

hefur einhver borið hér bein

hvernig stendur á þessum legg

hvað er á seyði

hvaða tröll hafa hér vélað

eigum við að vera

grafa fara

 

guð þú ert ekki til

raddir rispa punkta

í festinguna

hverfa í mosató hennar

smjúga inn í maríutásur

 

horfum laumulega

hver á annan

spyrjandi ágengir

á beinið helvítis beinið

göngum þöglir keikir hægt

svipur þess vakir yfir

fylgir lengi á göngunni

 

þögnin þykk skerandi

ásar og hálsar í kring

kjarvalskar hraunmyndir

enga byggð að sjá

 

svart og gráhvítt næst

en grænt og leirbrúnt fjær

upp í bláan himin

með hvítum skýjaförum

 

kynjamyndir hraunsins

sem ævafornar hellamyndir

kolsvartar og sindurgrænar

bláglóandi og óransrauðar

inni í himinblámanum

minna á myndir

meistarans sem ég sá

áratugum seinna

 

þarna rís Valur

sjóblautur úr grámosanum

líkastur fyrirboða í draumi

og heldur hann ekki

örugglega á Hrafni við hliðina

tvö göt í myndinni

 

bærist ekki hár á höfði

hnífurinn má ekki

má ekki standa í kverk

 

glampandi blaðið

eins og mosinn

sem gleypir allt

 

á að bjóða hinn vangann

hopa

inn í vegginn

láta jörðina gleypa sig

guð þú ert ekki til

þú ert ekki til

allt þetta plat

leiktjöld biblíumyndir

leikaramyndir

mosinn hraunið beinið

burstin í fjarska

 

stækkar eins og í bíó

vex upp úr hrauninu

eins og í teiknimynd

tröllvaxin upp í himininn

klukkan í turninum

slær sex

aðfangadagur

jónsmessa

 

spor í mosann skýrt mörkuð

sem áfangar

í heimssögunni

á borð við Rósu Parks

sem neitaði að standa upp

fyrir hvíta manninum

í strætó

hrædd og óbeygð kona

með stuðningi kóngsins

bæði undir fertugu

og áttu sér draum

 

kannski liðu einmitt tvö ár

á milli Vals og Hrafns

 

less matter and more art

sagði konan við Kjarval

og smám saman

verður landið eins

og hann sá það

 

á stígnum fjarar

hraunið út með þögn

óhætt að tala grínast

með beinið krossinn

nestispokann

kirkjan lokuð og læst

 

blóðrauðar tungur

undir krossinum

töluðu skýrt til mín

að mestur væri kærleikurinn

undir stjórn hans

og amma steig fram

hjá skólanum

við rætur fjallsins

sem mig langaði alltaf

að stunda í kyrrðinni

eins og íslenskt klaustur

undir aga klerksins

 

þeir hlógu feimnislega

líkt og þetta væri klámmynd

ég að spásséra um gangana

og lesa upp úr biblíunni

þarna í víðáttugrænum

mosanum undir kirkjunni

úr steininum og kölluðu mig

í háðungarskyni eldprest

og eiturbrasara

 

en það var ekki ég heldur amma

á krossinum yfir beininu hvíta

 

ég vildi að hún væri Hermannsdóttir

en ekki Hans

 

frammi fyrir tákninu

spyr maður

hver skúrkurinn sé

 

og í Dallas hefur bíllinn

ekið sitt eilífðarskeið

og skotið heimsfrægt

forsetinn allur

mamma

liggur ekki í blóði

heldur leggur á borð

fyrir alla og móttekur pabba

með sjóðheitri grautarausu

yfir græna hattinn

hvar er þá fórnarkenndin

með skúrkinn sjálfan

í dyrum

 

tunglið kallar Houston

mannkynið hefur stigið

sitt stóra skref

ég lítið

 

hnífurinn

kverkin

það ósegjanlega

má ekki gerast

 

og vorið er skammt

komið í Prag

stúdentinn að nema þar sögu

með Gúlagið og góða dátann

Svejk í laumi

 

allt bundið í tákn

sem byssukjaftar riðla

og snara í kerfi

lyga og sannleika

 

héldum við saman

mamma pabbi

 

að lesa til baka

söguþráður slitinn

ívaf raknar ekki

sagan kastar neti sínu

hnykkir á lögmálum

ljósaskipta augnafjöld

flugnasveimur sýgur ekki blóð

 

 

sonur sæll

 

gráa rússahúfan þín

minnti á kósakka og síberíufanga

fjarri samfélagi manna

og við vorum allir vissir

um að þú værir alveg búinn

að tapa þér

 

töldum annan klæðaburð

henta betur manni með bílpróf

svona ungum og þéttum

 

að hitta pabba þinn

einhvers staðar í fjandanum

var hann í alvörunni til

þessi ræfill

sem hafði aldrei séð þig

eða sent þér kort

eða jólagjöf

 

búinn kannski

að skera þig á háls

eins og abraham forðum

 

ekki leiddi höndin hans

ekki þig í það minnsta

kannski var hún líka laus

hann horfinn þér um aldur

líkt og kínverskur kaupmaður

í menningarbyltingu formannsins

og spúsu hans

 

þú ættir að skammast þín

ekki dýrka hann

eins og fjarstaddan frelsara

 

hvaða bilun hljóp í þig

að vilja heimsækja föður þinn

hinum megin á landinu

hann átti ekki skilinn son

svona góðan og klikkaðan

 

stjúpi og fóstri ættu að nægja

þarftu endilega

að blanda óskyldum í málið

manni sem hefur ekki gefið þér neitt

nema eina andskotans

stofnfrumu

 

ekkert tannfé

í viðsjálum heimi

þegar drepa má heilt mannkyn

hundrað sinnum

eða bara fimmtíu sinnum

eins og marskálkarnir segja

 

borð eða stólar eða bækur

duga skammt þegar á reynir

við vitum að geislunin smýgur

í gegn

 

ég meina hvað þarftu marga

pabba feður kalla

einn í viðbót ruglar þig bara

gerir þig klikkaðan

 

hann er örugglega

gunga og mannleysa

eins og pabbi minn

sem mamma kallar djöful

í mannsmynd

 

svo við dettum pabbi

onúr gólfinu niðrí stóran geim

fullan af leðju og lýsi

frá því í stríðinu

þegar allt var á hreinu

en einhvern veginn er tankurinn

alltaf úti á Granda

og pabbi tekur í hendina á mér

og leiðir mig upp í verbúð

þar sem hann vinnur

við að beita og ríða net

í skítakulda við kabyssu

með tveimur eldgömlum köllum

örugglega fimmtugum eða eitthvað

sem heilsa honum og segja eitthvað

sem hann hlær að með þeim

og ég skil ekki baun

og heima er hinum megin á landinu

 

þar veit mamma

hvers konar kall

pabbi þinn er

og þú bara verður að trúa henni

 

nei ekki fara ekki kasta þér

út í þennan hyl

þú veist ekki hvað þú færð

þú veist hvað þú hefur

þó það sé kannski svona og svona

 

 

andar um hálsmál

I

 

það var koldimmt í hrauninu

þegar þú fannst mig bróðir

og munstraðir mig

á bátinn með þér

við gengum stíginn saman

uns leiðir skildi inni í bænum

heima á kirkjuveginum

 

ég hafði staðið uppi í hárinu

á auðvaldinu

beygði það í duftið

og það hefndi sín

með háðsvísum öskrum

dylgjum um karlmennskudug

lítillækkuðu mig frammi

fyrir félögum mínum

 

og þegar ég brotnaði

læstu þeir dyrum

í landi og lýjandi

haustmyrkrið yfir mér

þurrkaði mig að innan

 

og ég sótti næringu í hraunið

svart þurrt heitt

 

lífsins hjól stöðvast

hægt eins og alheimur

aftur á bak

að upphafinu

almyrkva

ljóssins spjótum lagða

 

ég þáði plássið

ráðvilltur en ákveðinn

þessir djöflar blésu

kyrkingslega

ofan í hálsmálið

 

 

II

 

það var einhver andi

á móti þér þennan morgun

eftir ólætin daginn áður

þegar þú vast þér upp

á efra dekk

leikandi létt

og öldurnar skvettust

yfir þig í myrkrinu

 

kannski eitthvað seinn

heyrðir kannski ekki kallið

eða bara hægur

það hnígur nú

ekki í þér blóðið

sagði hann þegar þú fórst

upp ganginn út á dekk

 

og er þú vast þér

upp á efra dekk

í blíðunni og undiröldunni

sem stormurinn í gær

færði okkur

sáum við þig í slow-motion

fastan í gatinu

 

þegar báturinn steig

sitt samhæfða spor

þangað til þú lentir

í merlandi yfirborðinu

sem bylgjaðist út í hafsauga

og smaugst inn í öldugang

 

sem filma hafi slitnað

og myrkur faðmi mann

helkalt

sæblautt

 

ljósgeislar lemja

höfuðskel

augu nema ekki

sýn og haföldur einar

um sjáöldur

 

það vantar leikstjóra

á þessu djúpa sviði

sem gengur í bylgjum

fyrir sjónskökkum augum

 

það ósegjanlega

það varst þú

sagði mamma

sem fórst fram

í röggsemi og blindni

ég vissi ekki hvað var satt

gastu í alvöru beitt

hana þessu valdi

eins og mannsmorði

 

þú bauðst alltaf hinn vangann

og brostir með aðdáun

líka þegar þeir hæddu þig

 

andar um nætur

um hálsmál

innanhúðar

 

hugarburðir

uppurnir

fjalirnar þrengja

einhvern veginn að

allt gengur ekki

eftir handriti

 

nálægð þín

umvefur mig

frýs í æðum blóð

hnígur ekki

óvænt myrkvun

fyrirburðir

við heilabörk

 

leið hann faðir

ef þú ert til

út og inn

svo slepp’ hann

ósiðum hvers

kyns

 

endurreist sæmd veitir

væran svefn

stjörnur blika á dröngum

í hrauni